131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Alþjóðaumhverfissjóðurinn.

683. mál
[10:41]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að í þessu þróunarstarfi okkar eru töluvert miklar fjárhæðir sem einmitt eru nýttar fyrir meðalgöngu alþjóðlegra stofnana og sjóða sem við erum aðilar að. Það er rétt að við getum notað þetta framlag til að segja við sjálf okkur eða einhverja aðra — þetta er náttúrlega 77% af þessu framlagi: Við höfum hækkað framlag okkar til þróunarsamvinnuverkefna sem nemur 77% af þessari upphæð. Maður veltir samt fyrir sér, af því að við vitum að þó að allir vilji tala vel um þróunarsamvinnuverkefni er almennt viðurkennt, og menn eiga að viðurkenna það, að gríðarlegur hluti af þeim peningum á undanförnum 20–30 árum hefur farið í súginn. Þó að það sé sagt í hálfkæringi að menn taki peninga frá fátæka fólkinu í ríku löndunum til að gefa ríku mönnunum í fátæku löndunum segir það þó því miður mikla sögu, þó auðvitað ekki alla söguna, fjarri því. Þegar menn hittast á norrænum vettvangi og víðar, forustumenn þessara þjóða, í sínum hópi án þess að það séu teknar fundargerðir eru þar mjög oft almennar umræður um það hversu mikið af þessum miklu peningum fari í súginn. Ef allt væri lagt saman sem búið er að leggja til þessara verkefna í 30, 40, 50 ár eru þetta ofboðslegir peningar. Og hve stór hluti af þeim peningum hefur endað inni á reikningum annarra í svissneskum bönkum vilja menn helst ekki hugsa upphátt. Ég er ekki að segja að sjóður af þessu tagi endilega ýti undir það og ég er ekki að segja að þessi sjóður fari illa með peninga sína en það er í eðli svona stórra alþjóðlegra stofnana og sjóða að mikið skrifstofuhald upphefst, þúsundir manna eru í vinnu við það eins og við vitum með Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, árlegir fundir þar sem menn fljúga 5–6 þúsundir saman á 10 daga ráðstefnu um það hvernig eigi að verja þessum peningum. Allt er þetta þekkt og kostar óhemjufé.

Við getum hins vegar með okkar litla gegnsæja kerfi horft á eftir peningunum og séð hvort þeir koma að gagni, horft á það beinhart. Það er freistandi að gera það með þeim hætti.