131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng í Dýrafirði.

775. mál
[11:50]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar hafa lengi verið í umræðunni á Vestfjörðum og á Alþingi. Árið 1999 var tekin saman skýrsla um jarðgangakosti að tilstuðlan Vegagerðar ríkisins og um göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar segir í skýrslunni að jarðfræðilegar aðstæður séu nokkuð góðar, jarðgöng gætu orðið um 5,1 km á lengd og gangamunnar í 70 m hæð báðum megin. Áætlaður kostnaður á þáverandi verðlagi væri um 2,3 milljarðar kr. fyrir göngin, forskála og nýja vegi sem samtals eru áætlaðir um 7 km. Sú jarðgangagerð yrði verulega hagstæð, hún mundi stytta leiðina um 25 km, auk þess sem sparast mundi vegagerð sem að öðrum kosti verður að ráðast í út Arnarfjörðinn og kostar nálægt 1 milljarði kr.

Í skýrslu Vegagerðarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ætla má, að göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, ásamt vel uppbyggðum vegi yfir Dynjandisheiði og góðri vetrarþjónustu þar og á Gemlufallsheiði, mundi tryggja nokkuð öruggar heilsárssamgöngur milli suðurfjarðanna og Ísafjarðarsvæðisins.“

Ein af aðalástæðunum fyrir því að mjög er sótt á um að ráðist verði í þessa framkvæmd er að nauðsynlegt er að tengja Vestfirði saman sem eitt samgöngusvæði til að efla styrk svæðisins með svipuðum hætti og menn leitast við að gera á Austurlandi og í Eyjafirði.

Niðurstaða höfunda skýrslu Vegagerðar ríkisins var sú að mæla með þremur jarðgangakostum sem þeir töldu rétt að ráðast í. Í fyrsta lagi þann sem ég spyr um, milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, í öðru lagi milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og í þriðja lagi milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Nú er að ljúka jarðgangagerð á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Fara á að bjóða út, öðru sinni reyndar, jarðgangagerð milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar en ekkert bólar á að ráðist verði í þau þriðju sem Vegagerðin mælti með, milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. samgönguráðherra: Hvernig miðar undirbúningi að jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar?