131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:21]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég gat greint af þessu andsvari var að hv. þingmaður vildi meina að ég hefði í máli mínu dregið þá ályktun að frumvarpið mundi veikja lögin. Það er rétt, einfaldlega vegna þess að úrræðum fækkar. Það er verið að fækka heimildum frá því sem nú er, verði þetta frumvarp að lögum. Þar af leiðandi hef ég sagt að það veiki lögin.

Í öðru lagi hef ég einnig sagt að þrátt fyrir hástemmd markmið og yfirlýsingar, um að ætlunin sé að efla samkeppniseftirlitið, þá hef ég fært mjög ítarleg rök fyrir því að það markmið muni ekki ganga eftir ef þessi leið verður farin. Það er ekki bara ég sem segi það heldur einnig allir helstu sérfræðingar á þessu sviði sem fyrir nefndina komu. Það er ekki eins og ég sé að finna upp þessi sjónarmið. Þetta hefur einfaldlega verið dregið fram. Það hefur jafnframt verið dregið fram að forsendur stjórnsýslubreytinganna byggja ýmist á misskilningi eða röngum forsendum. Þetta hefur verið dregið mjög skýrt fram.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þingmann, af því hann er hér í andsvari: Hvað er það í umhverfinu, í lögunum, sem kallar á þessar breytingar? Það einasta sem samkeppnisyfirvöld hafa kallað eftir er aukið fjármagn og mannskapur. Að öðru leyti er ekki um neinar breytingar þess eðlis að þær séu líklegar til að skila árangri. Þessu höfum við reynt að kalla eftir, að fá skýringar á því hvers vegna skuli halda í þessi áform.

Við þekkjum hin óljósu markmið um að bæta alla skapaða hluti en svo þegar menn fara yfir röksemdafærsluna þá rekst hvað á annars horn. Það er ekki óeðlilegt í þeirri stöðu að við reynum að kalla eftir, eins og hægt er, (Forseti hringir.) sjónarmiðum og röksemdum sem sýni fram á að málið sé trúverðugt.