131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Olíugjald og kílómetragjald.

807. mál
[14:12]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með þetta svar vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra svaraði því ekki hvort skila ætti virðisaukaskattinum af olíugjaldinu, sem mun nema í kringum 1 milljarði kr. á ársgrundvelli, til baka til kaupenda olíu og lækka þar með olíugjaldið ofan í þá tölu sem ég nefndi og koma þar með dísilolíuverði niður fyrir bensínið þegar þetta kerfi tekur gildi. Því hefur ekki verið svarað.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um fimmkallinn sem hann ætlar að lækka þetta verð, eða 4 kr. plús vaskurinn sem gerir 5 kr. Hráolíuverð með fullri þjónustu mun verða tæpar 113 kr. eftir þessa breytingu meðan bensínverðið er 106 kr. Hver verður þá hvati fólks hér á landi til að skipta yfir í dísilbíla? Enginn.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að fjármálaráðherra upplýsi þingheim um hvort sá milljarður sem hann er að ná í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts af olíugjaldinu — takið eftir, hv. þingmenn — sem ekki var greiddur af þungaskattinum, fari inn í þessa tölu eða ekki. Eða á það að vera þannig að skattheimta af þeim sem nota bíla með þessu eldsneyti muni aukast um 1 milljarð á ári eins og tillögurnar gera ráð fyrir?

Þetta er það sem þingheimur þarf að fá svar við, þetta er það sem efnahags- og viðskiptanefnd þarf að fjalla um og við þingmenn að svara, ef við ætlum að fá hin jákvæðu áhrif af olíugjaldinu sem fjallað hefur verið um. Ég ætla ekki að lengja 1. umr. með því að benda á tillögu sem Samfylkingin flutti við olíugjaldsfrumvarpið en var felld. Það voru sennilega bestu tillögurnar til að fjölga dísilbílum á Íslandi á kostnað bensínbíla og spara þjóðarbúinu, en það verður ekki gert, virðulegi forseti, með þessari skattheimtu og okurálagningu á dísilolíuverð, sama hvort það verður fimmkall til eða frá. Ég spyr, virðulegi forseti, um milljarðinn í virðisaukaskattinn. (Forseti hringir.) Verður honum skilað eður ei?