131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[17:35]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Oft hefur verið kallað eftir því á Alþingi að lögfest yrði hér á landi umboðsmaður neytenda eða talsmaður neytenda. Neytendasamtökin hafa í langan tíma kallað eftir því að komið yrði á fót embætti umboðsmanns neytenda með líku sniði og er á hinum Norðurlöndunum. Þess vegna veldur miklum vonbrigðum sú niðurstaða sem hér stefnir í, þ.e. að lögfesta eigi þetta frumvarp viðskiptaráðherra sem er raunverulega ekkert annað en bastarður og erfitt að sjá hvernig verður í framkvæmd. Kastað hefur verið til höndunum við samningu þessa frumvarps og alveg ljóst er að hæstv. viðskiptaráðherra hefur engan metnað fyrir hönd neytenda við að koma á sómasamlegu embætti sem styrkir hag neytenda. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að draga í efa að lögfesting á þessu frumvarpi komi til með að styrkja eitthvað neytendavernd í landinu.

Það er afar mikilvægt fyrir þjóðir sem búa við markaðsskipulag, sem er sífellt að aukast hjá okkur, að hafa öfluga neytendalöggjöf og að komið verði á fót embætti umboðsmanns eða talsmanns neytenda. Það hefur vantað í okkar löggjöf í neytendamálum að hafa slíkt embætti sem væri mjög til hagsbóta fyrir neytendur. Hinar Norðurlandaþjóðirnar sem við berum okkur oft saman við í neytendamálum hafa fyrir löngu komið á slíku embætti sem er öflugt og traust og veitt til þess fjármagn þannig að það geti sinnt sínum verkefnum.

Ég held að það hafi margsýnt sig hér á landi að mjög nauðsynlegt er að hafa virka neytendavernd og virkt neytendaeftirlit. Við höfum margsinnis gengið í gegnum það á umliðnum árum og áratugum að heilu atvinnugreinarnar eru bókstaflega í samsæri gegn neytendum. Þar getum við nefnt bæði tryggingafélögin og grænmetisgeirann svo dæmi sé nefnt.

Hv. síðasti ræðumaður hafði forgöngu um það af hálfu okkar samfylkingarþingmanna að flytja tillögu til þingsályktunar í upphafi þessa þings þar sem fram kemur lýsing okkar á því hvernig við viljum hafa slíkt embætti talsmanns neytenda og þar er auðvitað grundvallaratriði, sem ekki er að finna í þessu frumvarpi, að embættið sé sjálfstætt, hafi sjálfstæðan fjárhag og starfsfólk, það hafi forustu um stefnumótun o.fl., m.a. til þess að það geti höfðað mál fyrir dómstólum eins og hægt er hjá embættum umboðsmanna á hinum Norðurlöndum.

Nú er það svo að ég hefði gjarnan viljað skoða það, þó ég sé einn af flutningsmönnum þeirrar tillögu sem Þórunn Sveinbjarnardóttir er 1. flutningsmaður að, að embættið héti umboðsmaður neytenda en ég féllst á það á sínum tíma, á liðnu ári, að þetta yrði sett fram með þessum hætti þó ég hefði gjarnan frekar viljað að embættið héti umboðsmaður neytenda. Það er auðvitað minni háttar mál. Aðalatriðið er efnisinnihaldið og hvað felst í þeirri löggjöf sem sett er um slíkt embætti.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Ég kem aðallega í ræðustól til að lýsa miklum vonbrigðum mínum með þá niðurstöðu sem nú stefnir í. Ég vil þó aðeins fara út í þær umsagnir sem fram hafa komið hjá Neytendasamtökunum, ASÍ og Samkeppnisstofnun sem eru í mörgum atriðum mjög samhljóða. Það er t.d. gagnrýnt hjá öllum þessum aðilum að hér sé verið að hræra saman ólíkum málum með því að fella málefni neytenda sem hafa verið hjá Samkeppnisstofnun undir Löggildingarstofu eins og Alþýðusamband Íslands tekur fram og reyndar Samkeppnisstofnun líka, að verkefni sem Neytendastofu er ætlað að hafa, þ.e. þau verkefni sem Löggildingarstofa hefur haft, snúa ekki beint að neytendamálum í hefðbundnum skilningi. Má þar nefna rafmagnsöryggismál, öryggi raforkuvirkjana, neysluveitna og raflagna, yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði auk þess að sjá um framkvæmd laga um vog, mál og faggildingu. Alþýðusamband Íslands segir í umsögn sinni að hætta sé á að þessi nýja stofnun hafi ekki nægilegt bolmagn til að efla neytendamál og auka neytendavernd í samræmi við markmið laganna.

Nú er ástæða til að halda því til haga hér að fulltrúi Löggildingarstofu eða starfsmanna sem kom á fund efnahags- og viðskiptanefndar sagði aðspurður að Löggildingarstofa hefði búið við mikinn skort á fjármagni og ekki getað með eðlilegum hætti sinnt sínum verkefnum sem eru þessi rafmagnsöryggismál og nú á samkvæmt frumvarpi ráðherra að flytja sex starfsmenn Samkeppnisstofnunar sem hafa sinnt neytendaverkefnum yfir í Neytendastofu. Þegar svo hefur verið um hnútana búið að því er varðar Löggildingarstofu að hún hefur ekki getað sinnt með eðlilegum hætti rafmagnsöryggismálum munu þeir starfsmenn sem þarna flytjast frá Samkeppnisstofnun yfir í Neytendastofu vissulega koma þá til með að verða bara sú viðbót sem nú vantar inn í Löggildingarstofu til að hún geti sinnt sínum verkefnum. Ef forstjóri Neytendastofu, hver sem hann svo verður, leggur mesta áherslu á þann þátt sem snýr að þeim verkefnum sem hafa verið á Löggildingarstofu þá ræður hann þar því ferðinni, þ.e. hvort hann nýtir þann mannskap sem hann fær frá Samkeppnisstofnun í að manna verkefni sem á hefur skort hjá Löggildingarstofu og talsmaður neytenda sem á að skipa þarna sitji einn eftir með sín verkefni. Hann á ekki að hafa stefnumótun með höndum heldur Neytendastofan og forstjóri hennar. Það kom margoft fram í umfjöllun nefndarinnar að þarna gæti verið um verulega skörun að ræða á verkaskiptingu milli talsmanns neytenda sem á að vera svona innan búðar í þessari Neytendastofu og síðan forstjóra Neytendastofunnar. Maður spyr, af því að umboðsmenn hinna Norðurlandanna hittast iðulega, hvor aðilinn verði fulltrúi Íslands á slíkum fundum. Verður það talsmaður neytenda eða forstjóri Neytendastofu svo tekið sé dæmi af þeim ruglingi sem þarna getur orðið?

Það er ástæða til að halda því vel til haga sem fram kemur í umsögn Samkeppnisstofnunar en þar segir, með leyfi forseta :

„Þá fær Samkeppnisstofnun ekki séð að það verði framkvæmanlegt að starfsmenn Neytendastofu hafi í reynd tvo yfirmenn, forstjóra Neytendastofu og talsmann neytenda. Mikil hætta er á togstreitu tveggja yfirmanna um sama starfsfólk. Í þessu sambandi skal tekið fram að það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu var reynt í Danmörku með slæmri reynslu. Skipulagið var þannig að umboðsmaður neytenda hafði til umráða ákveðið hlutfall af starfi þeirra lögfræðinga sem störfuðu hjá Forbrugerstyrelsen, dönsku neytendastofnuninni. Á árinu 2002 var þessu breytt þannig að umboðsmaður neytenda hafði 9 lögfræðinga til umráða við störf sín, skrifstofustjóra og ritara.“

Þarna kemur augljóslega fram að slíkt fyrirkomulag gekk ekki upp í Danmörku þar sem það hefur verið reynt og Samkeppnisstofnun segir í umsögninni að þar hafi skapast ýmis vandamál, t.d. þegar forgangsröðun skaraðist. Það er einmitt það sem ég er að leggja áherslu á. Ef forstjóri Neytendastofu hefur aðrar áherslur en talsmaður neytenda getur verið um að ræða skörun á forgangsröðun verkefna.

Ég segi eins og þeir sem hafa verið að gagnrýna það sem fram kemur í breytingartillögum meiri hlutans, að talsmanni neytenda sé heimilt að gera þjónustusamning við Neytendastofu um undirbúning mála fyrir embættið, að ég get ekki séð að það breyti miklu eða taki á þeim vandamálum sem upp geta komið í samskiptum þessara tveggja aðila.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að fram kæmi og líka það sem fram kemur í umsögn Samkeppnisstofnunar. Hún vekur líka athygli á að umboðsmaður neytenda á Norðurlöndum geti höfðað mál fyrir hönd neytenda, hvort heldur er einstakra neytenda eða hóps þeirra, og hún vekur athygli á ýmsu öðru í sinni ágætu umsögn og sömuleiðis Alþýðusamband Íslands. Neytendasamtökin gagnrýna auðvitað mjög þetta fyrirkomulag sem gengur algerlega gegn því fyrirkomulagi sem þeir hafa talað fyrir árum saman að komið yrði á með stofnun umboðsmanns neytenda.

Ég hef ekki heyrt hæstv. ráðherra lýsa því hér hvernig hún sjái að þetta geti gengið upp eins og lagt er til. Það er alveg ljóst að til að tryggja að þetta embætti skili sér í því sem lagt er upp með, þ.e. aukinni neytendavernd, þá er grundvallaratriði að embættið sé sjálfstætt og óháð og hafi sjálft forustu um stefnumótun. Þess vegna tek ég undir það, virðulegi forseti, að málinu hefði átt að fresta og undirbúa það betur, bæði í samráði við Samkeppnisstofnun og Neytendasamtökin, þannig að það sé bærilega úr garði gert. Lítið fjármagn fylgir þessari breytingu. Kostnaður ríkissjóðs eykst aðeins um rúmar 16 millj. kr., þar af 14,5 millj. sem er varanlegur rekstrarkostnaður sem er eingöngu vegna talsmanns neytenda.

Því miður, virðulegi forseti, stefnir í að þetta skili okkur engu í aukinni neytendavernd. Það er miður að loksins þegar slíku embætti er komið á fót sé frá því gengið með þeim hætti að það er í rauninni sýndarembætti. Löggjöfin í kringum talsmann neytenda er bastarður og ég spái því að ekki verði langt þangað til þessi löggjöf, ef frumvarpið nær fram að ganga á þessu þingi, verði tekin upp á nýjan leik vegna þess að menn munu fyrr eða síðar reka sig á þau ýmsu vandamál sem upp munu koma í starfi nýrrar Neytendastofu og hjá talsmanni neytenda.