131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Lyfjalög og heilbrigðisþjónusta.

649. mál
[20:55]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu nefndarálit um breytingu á lyfjalögum og lögum um heilbrigðisþjónustu sem hv. formaður heilbrigðis- og trygginganefndar hefur gert grein fyrir.

Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og þær breytingartillögur sem nefndin leggur. Ég vil því gera grein fyrir fyrirvara mínum en hann snýr að blóðbankanum og blóðbankastarfseminni rétt eins og fyrirvari hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur.

Tilskipun Evrópusambandsins er mjög ítarleg. Starfsemi blóðbanka er í örri þróun og hefur verið mörg undanfarin ár en þeir gegna mjög mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustunni. Þetta er mjög sérhæfð starfsemi og mikilvægt að allt innra eftirlit, allar gæðakröfur og varsla persónuupplýsinga séu í fyllsta samræmi við það sem tilskipun Evrópusambandsins hljóðar upp á. Ég tel því mjög mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra taki þegar til við að skoða starfsemi blóðbanka og hvort ekki sé rétt að setja sérstök lög um þá starfsemi.

Hæstv. forseti. Ég vil líka leggja áherslu á að miðað við óbreytt lagaumhverfi tel ég mikilvægt að Blóðbankinn og starfsemi Blóðbankans sé fjárhagslega aðskilin starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ég tel það mikilvægt fyrir starfsemina, fyrir öryggi rekstursins, að það komi ekki til niðurskurðar eða breytinga á starfseminni ef til breytinga kæmi á rekstri eða starfsemi annarra deilda háskólasjúkrahússins frekar en orðið hefur. Mikilvægi starfsemi Blóðbankans fyrir landið, sem sérhæfðrar deildar eða stofnunar, hefur ítrekað komið fram.

Hæstv. forseti. Ég vildi útskýra þennan fyrirvara minn og tel ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu neitt frekar. Ég vil þó að það komi fram að ótrúlega góð sátt var í nefndinni varðandi þessar breytingar. Lyfjaiðnaðurinn er atvinnugrein þar sem miklir fjármunir eru undir og rannsóknir, framleiðsla og þróun er mjög dýr. Því eru miklir hagsmunir í húfi og hvað varðar samhliða innflutning á lyfjum þá verða hagsmunaárekstrar en ég tel að sú niðurstaða sem hér er hafi fengist í góðri sátt. Ég trúi því að um starfsemi sem tengist samhliða innflutningi lyfja verði betri sátt eftir þessar breytingar.