131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi.

698. mál
[21:05]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur nú mælt fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga. Þessi lög eru ekki gömul. Þau eru frá árinu 2001 og eftir því sem mig minnir best held ég að ég hafi einmitt bent á að nokkrar brotalamir væru í þessari lagasetningu sem síðan eru berlega að koma í ljós.

Ég styð þetta nefndarálit með ákveðnum fyrirvörum sem ég ætla að gera grein fyrir. Í fyrsta lagi er það í 9. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um vegagerðarmennina. Þar stendur, með leyfi forseta:

„... er eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar heimilt að stöðva ökutæki viðkomandi til að kanna um hvernig flutning er að ræða og hvort starfsemi er leyfisskyld. Vegagerðin getur leitað aðstoðar lögreglu við að stöðva ökutæki í þessum tilvikum.“

Þarna er kveðið á um að Vegagerðinni sé heimilt að stöðva ökutæki. Stöðvun á ökutæki er lögregluaðgerð og við þetta hefur m.a. Landssamband lögreglumanna gert verulegar athugasemdir. Það að hafa vald til þess að stöðva bifreið í akstri þýðir að þá er viðkomandi kominn með lögregluvald. Hann er kominn með blátt ljós á bílinn, hefur orðið rétt til þess að beita blikkljósi sem aðeins lögreglan hefur annars heimild til. Eftirlitsmenn Vegagerðarinnar eru í sjálfu sér ekki lögreglumenn. Þeir hafa einmitt bent á þetta, að þeir hafa hvorki til þessa þjálfun, réttindi né tryggingar og svo er ekki tekið fram í starfssamningum þeirra að þeir eigi að gegna löggæsluhlutverki. Þess vegna er um þetta óvissa.

Landssamband lögreglumanna hefur líka bent á þetta. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna til umsagnar Landssambands lögreglumanna sem varar mjög við því að leggja það á vegaeftirlitsmenn og heimila þeim að beita lögregluvaldi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að við lög ... um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi bætist ný grein ... er kveðið á um skyldu ökumanns til þess að stöðva ökutæki sitt gefi lögregla eða eftirlitsmaður Vegagerðarinnar stöðvunarmerki. Landssamband lögreglumanna telur að ekki sé forsvaranlegt að aðrir en lögreglumenn hafi stöðvunarheimild ökutækja. Þá er ljóst að í þeim tilvikum er 9. gr. frumvarpsins tilgreinir getur lögregla í öllum tilvikum sinnt stöðvun brotlegra ökutækja með fullnægjandi hætti og því ekki þörf á slíkri heimild til handa starfsmönnum Vegagerðarinnar. Þá er bent á að aðeins lögreglumenn búa yfir þekkingu og reynslu um hvernig standa beri að stöðvun ökutækja en rangar aðferðir við slíkt geta haft í för með sér afar alvarlegar afleiðingar fyrir umferðaröryggi á vegum landsins. Í Lögregluskóla ríkisins hljóta lögreglunemar afar nákvæma og ítarlega kennslu og þjálfun í stöðvun ökutækja. Því má ljóst vera að starfsmenn Vegagerðar sem ekki hafa hlotið slíka þjálfun né hafa reynslu af stöðvun ökutækja eru með engu móti í stakk búnir til að taka að sér það verkefni lögreglu.“

Ég tel þessa athugasemd frá Landssambandi lögreglumanna mjög alvarlega. Í umsögn frá BSRB, sem er stéttarfélag vegaeftirlitsmanna, er einnig mjög afdráttarlaust tekið undir þessa athugasemd Landssambands lögreglumanna um að vegaeftirlitsmenn verði ekki gerðir að lögreglu.

Þess vegna hef ég lagt fram breytingartillögu, herra forseti, um að þessi setning um að vegaeftirlitsmenn hafi heimild til þess að beita lögregluaðgerð og stöðva ökutæki verði felld niður, þ.e. að orðin „eða eftirlitsmaður Vegagerðarinnar“ falli brott þannig að bara lögreglan hafi heimild til þess að beita stöðvunarskyldu og nota til þess lögreglubílaljós og annað því um líkt sem þarf að beita við það og einnig að þurfi að stöðva bifreið þá skuli Vegagerðin leita aðstoðar lögreglu við að stöðva ökutæki í þessum tilvikum.

Herra forseti. Þetta er meginathugasemd mín við þetta frumvarp og nefndarálitið sem hér hefur verið mælt fyrir. Ég tel þetta mjög alvarlegt mál og spyr á hvaða vegferð við séum ef við ætlum að færa vegaeftirlitsmönnum lögregluvald og lögregluskyldur eins og þær að nota forgangsljós á bíl og stöðva bíla á ferð eftir vegunum, beita þannig lögregluaðgerð, en ekkert er á um það kveðið í starfssamningum vegaeftirlitsmanna eða í tryggingum þeirra að þeir hafi slíka heimild.

Ég legg því til, herra forseti, að þetta verði fellt burt úr þessu frumvarpi eins og ég hef gert grein fyrir.