131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:02]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög einfalt að svara hv. þingmanni þessari spurningu. Það var greitt úr ríkissjóði. Eins og ég sagði áður voru gerð smámistök í þessari áætlun … (KLM: Voru hvað?) smámistök í áætluninni. En það er hægt að dreifa þessu að vild á milli ára og hægt að taka þessar 800 millj. kr. eða þær milljónir sem þarf til þess að borga þessum verktaka upp framkvæmdir sínar í ár þannig að það er ekki vandamálið.

Svo er það þannig, virðulegi forseti, sem hv. þingmaður ætti að vita betur en margir aðrir, að menn fara af stað með áætlun og menn samþykkja áætlun, hvort sem það er mín eða einhver önnur, og þá færa menn oft fjármagn á milli verkefna. Stundum er það þannig að verkefnin eru ekki tilbúin eða að mat á umhverfisáhrifum dregst (Gripið fram í.) áður en framkvæmdir hefjast, virðulegur forseti. Menn þurfa oft að gera það. Menn hafa oft þurft að færa fé á milli verkefna, bæði á þessu svæði og annars staðar. Það er ekki vandamál að færa greiðslur frá árinu 2006 til ársins 2005 til að greiða verktakanum þennan milljarð eða þær 800 millj. kr. sem vantar (Gripið fram í.) upp á að hann fái greitt fyrir vinnu sína.

Virðulegur forseti. Mér finnst óviðkunnanlegt að hv. þingmaður sé alltaf að grípa fram í. Það kemur væntanlega að honum og hann getur þá látið ljós sitt skína, virðulegur forseti. En að menn tali um einhverjar tilfærslur, um einhverjar upphæðir á milli ára, þykir mér með ólíkindum, ef gera á slíkt að aðalmáli í þessu máli. Við erum hér að ræða um aðalatriði, þ.e. tilfærslu á peningum frá framkvæmdum á landsbyggðinni til þéttbýlisins.