131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:17]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar að liggja muni fyrir mat á umhverfisáhrifum í júní. Hvernig getur hann þá fundið orðum sínum stað í því að það sé búinn að vera eilífur undansláttur í ákvörðunartöku um legu Sundabrautar þegar ekki hefur komið fram enn þá hvar og hvernig borgin vill haga sínum málum?

Varðandi mislægu gatnamótin, að hlaupa yfir í Hlíðarfót og segja að nú þurfi Hlíðarfótur að koma vegna þess að þá þurfi ekki að setja mislæg gatnamót. Það er bara rangt, vegna þess að það liggur fyrir að þarna fara yfir 80 þúsund bílar á dag og það verður ekki svo mikil minnkun á umferð á þessum hættulegu gatnamótum þó að Hlíðarfóturinn komi, það skiptir ekki öllu máli. Hins vegar skiptir öllu máli að setja þarna mislæg gatnamót því að það hefur sýnt sig að þar sem þau hafa verið sett upp í Reykjavík hefur umferðarslysum fækkað úr nokkrum tugum prósenta niður í 2–3%. Við höfum dæmi um það og það veit þingmaðurinn vel.

Varðandi það að nauðsynlegt sé að taka ákvörðun um Hlíðarfót o.s.frv. er það náttúrlega bara undanskot og eins orð hans hér áðan að það sé bara eilífur undansláttur í þessu máli.