131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Stuðningur við búvöruframleiðslu.

733. mál
[11:49]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Þegar búvörusamningur hefur verið nýgerður verða menn auðvitað að standa við hann. Hitt er alveg ljóst að í aðdraganda þess samnings hvatti ég kúabændur til að skoða það verulega hvernig stuðningnum yrði hagað hvað hámarksstærðir varðar. Þeir hlustuðu ekki á rök mín þá og vildu ekki fara þá leið. Það kom í ljós að í þinginu var heldur ekki meiri hluti fyrir slíkri stefnu. Mér er alveg ljóst að aðilar vinnumarkaðarins sem að þessum samningi komu féllust alls ekki á sjónarmið mín í þeim efnum. Ég talaði í fjölmiðlum fyrir stuðningi sem færi í þrep eða sperrur við 200 þús. lítra, við 300 þús. lítra, og mundi draga úr stuðningnum. Þannig talaði ég og vildi sjá það gerast. En það náðist ekki á samningaborði. Það var ekki vilji aðila vinnumarkaðarins fyrir að styðja slíkar hugmyndir þannig að þarna varð ég nánast má segja undir í þessari baráttu þó að vissulega sé það svo að stuðningnum var breytt. Það koma gripagreiðslur eins og hér hefur komið fram og dregur úr honum við ákveðna stærð. En ég hefði viljað sjá stærri skref í þeim efnum. Auðvitað eru engin verksmiðjubú enn þá á Íslandi heldur að öllu leyti fjölskyldubú í eigu þess fólk sem rekur þau.

Ég vil segja hér að það fólk sem nú er að stofna Mjólku segist vilja vera utan við kerfið. Það segist ekki vilja láta neyða inn á sig stuðningi. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé fullur réttur þessa fólks að velja þá leið. Ég hef sagt það alveg skýrt að þeir sem eru innan búvörusamnings fara með réttindi og skyldur hans. Það liggur því hreint fyrir að þetta fólk hefur frelsi til að fara þessa leið og ég óska því velfarnaðar. En (Forseti hringir.) auðvitað verður fylgst með stöðu mjólkursamningsins og þróun kúabúskaparins. Það mun sá gera sem hér stendur.