131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[10:36]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram. Á fundi þingflokksformanna með hæstv. forseta síðasta mánudag lá fyrir dagskrá. Á þeirri dagskrá var bæði það mál sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur flutt um að afnema fyrningarfresti í kynferðisafbrotamálum gegn börnum og hins vegar frumvarp sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur flutt um vörsluskatta. Ég reiknaði með því að þau mál sem þarna voru á dagskrá væru inni í þeim samningum sem verið er að gera. Það væru þau mál sem við ætluðum að ljúka áður en þingið færi í sumarleyfi.

Ég ítreka þá ósk mína að við þá samninga, við þá dagskrá sem þar var verið að ræða, verði staðið og afgreiðsla þessara mála fari fram í dag.