131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[10:49]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þau frumvörp þrjú sem við erum að taka til afgreiðslu snúast fyrst og fremst um breytingar á stjórnsýslu samkeppnisyfirvalda. Stjórnsýslubreytingar og niðurlagningar stofnana eru hefðbundnar aðferðir stjórnarflokkanna þegar ná skal pólitískum tökum á sjálfstæðum og óþægilegum stofnunum, auk þess sem koma þarf fyrir vildarvinum í kerfinu. Ekkert hefur komið fram um að núverandi fyrirkomulag virki ekki. Þvert á móti sýna dæmin að kerfið virkar. Hið eina sem ekki hefur virkað eru nægileg fjárframlög ríkisstjórnarinnar til málaflokksins.

Ríkisstjórnin hefur haldið samkeppnisyfirvöldum í fjársvelti. Það hefur komið fram að það vantar í það minnsta 100 millj. kr. á ári til þess eins að hægt sé að ljúka þeim erindum sem samkeppnisyfirvöldum berast. Markmið frumvarpanna þriggja sem hér er verið að afgreiða er að veikja samkeppnislögin, ná pólitískum tökum á samkeppnisyfirvöldum og refsa þeim fyrir olíumálið. Samkeppnisstofnun gerði að mati ríkisstjórnarinnar það sem hún mátti alls ekki gera. Hún snerti hina ósnertanlegu. Hún snerti þá sem hingað til hafa aldrei þurft að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Hún snerti þá sem hingað til hafa setið á fremsta bekk á landsfundum stjórnarflokkanna og rakað saman fé í þeirra þágu.

Hæstv. forseti. Gjörvöll stjórnarandstaðan og almenningur í landinu munu fylgjast með hverri hreyfingu hæstv. viðskiptaráðherra í þessu máli.