131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:35]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þingmanna um að við þurfum að bæta vinnulagið og nútímavæða vinnuáætlun okkar. Það er löngu tímabært, það sér hver einasti þingmaður hversu vitlaust þetta er. Í morgun var tekin snerpa og gerðar alvarlegar athugasemdir við það af hverju frumvarp sem sett var á dagskrá sl. mánudag er ekki á dagskrá í dag, á síðasta degi þingsins, þrátt fyrir samkomulag þess efnis frá formönnum þingflokkanna um að taka þau mál af dagskrá sem samkomulag var um að gera, og það var ekki rætt á þeim fundi að taka umrætt mál sem lýtur að því að afnema fyrningarfresti í kynferðisafbrotum gegn börnum af dagskrá.

Heyrst hefur í umræðunni að það sé einfaldlega ekki tími til að ræða það mál, það sé ágreiningur um það þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir öðrum ágreiningsmálum í dag, eins og fjarskiptamálunum. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur bent á að 11. maí virðist vera það heilagur að við verðum að ljúka í dag. Það liggur svo á að fara í sumarfrí í tæplega fimm mánuði sem öll þjóðin sér hve galið er. Ef við hefðum raunhæfa og skynsamlega vinnuáætlun mundum við ekki lenda í þessu. Þá mundum við ekki heyra afsakanir um að við þyrftum að ljúka þingstörfum þennan sérstaka dag og gætum klárað málin með lýðræðislegum hætti eins og vera ber.

Það hefur einnig heyrst í umræðunni varðandi fyrningarmálið að breytingartillaga eins stjórnarþingmanns hafi haft einhver áhrif á að málið fáist ekki á dagskrá. Það er fráleitt með öllu og fyrirsláttur í ljósi þess að breytingartillögur eru oft að koma fram á síðustu stundu og umrædd breytingartillaga kom fram í gær. Það er ekki óeðlilegra en það.

Að sjálfsögðu þurfum við að laga vinnulag okkar hér og þingmenn tala um það en það virðist skorta pólitískan vilja til þess. Stjórnarmeirihlutinn ræður hvernig vinnulagið er og það var mjög gaman að sjá að þegar umræðan hófst voru nánast allir þingmenn í salnum en að 3 mínútum liðnum voru allir stjórnarþingmenn farnir út fyrir utan tvo, þeir ruku allir út. Umræðan hefur verið aðeins lengri en menn bjuggust við og á meðan hafa enn fleiri þingmenn farið út, en þegar umræðan hófst var langstærsti hluti þeirra þingmanna sem sat í salnum stjórnarandstöðuþingmenn sem hafa áhuga á að breyta vinnulaginu.

Það þýðir ekki að tala bara um þessi mál. Við eigum að gera eitthvað í þessu og ég bind miklar vonir við að við munum sjá einhverjar breytingar á vinnulaginu með nýjum forseta Alþingis. Ég held að það sé borin von að núverandi forseti Alþingis hafi nokkurn vilja til að bæta vinnulagið sem er alveg út í hött og öll þjóðin sér.