131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[13:10]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Í ljósi þess að fyrirhugað var að gera hádegishlé á þessum tíma þá ætla ég ekki að setja á langa ræðu. Hins vegar voru það orð hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem hvöttu mig til að koma í ræðustól þar sem hann gerði að umtalsefni skrif eins hv. þingmanns Framsóknarflokksins á heimasíðu sinni um að hún hefði þurft að vera á fleiri en einum fundi samtímis. Þingmaðurinn hafði líka orð á því hér að aðrir flokksfélagar hennar hefðu komið inn á fundi í einhverjum öðrum nefndum í hennar stað.

Ég ætla að árétta það, herra forseti, að þetta er sannarlega ekkert einsdæmi. Það þekkist í öllum þingflokkum á þinginu að forfallist þingmaður sem á fast sæti í nefnd þá komi einhver annar félagi hans í hans stað. Ég held að enginn flokkur sé undanskilinn þegar um þetta vinnulag er að ræða.

Það vill svo til að þegar verið var að reyna að klára mál á síðustu dögum þingsins voru fundir í fleiri en einni nefnd settir samtímis og fyrir þá þingmenn sem eru í flestum nefndunum vildi svo til að fundartíminn skaraðist, þannig að menn reyndu að fara á milli eða fengu varamenn til að fara inn fyrir sig. Ég ætla að árétta það, herra forseti, að þetta á við alla flokka í þinginu eins og hæstv. forseti veit og er hvorki einskorðað við Framsóknarflokkinn né stjórnarflokkana, heldur á við stjórnarandstöðuflokkana líka. Við hljótum að gefa okkur að þeir þingmenn sem koma sem varamenn á nefndarfundi hafi verið settir inn í málið áður en þeir taka sæti á fundunum.

Hins vegar vildi ég segja stuttlega um þessa umræðu sem er ágæt að mér heyrist flestir sem tekið hafa til máls vera sammála um að það þurfi að endurskoða starfstíma Alþingis og menn hafa haft orð á því að lengja þurfi starfstíma þingsins. Ég get sannarlega tekið undir það að vissu leyti en umræðan kemur svolítið spánskt fyrir sjónir á þessum tímapunkti. Á síðasta degi þingsins samkvæmt starfsáætlun og eftir að búið er að gera samkomulag allra flokka um að þetta sé lokadagur þingsins að sinni. Ég hefði haldið að ef menn vildu ná fram breytingum á starfstíma Alþingis væri það vinna sem menn settust niður við með aðkomu allra flokka strax í vor eða sumar og væru þá tilbúnir með einhverjar breytingar þegar þing kemur saman næsta haust í samstöðu allra flokka.

Starfstími Alþingis var m.a. ræddur á þingflokki okkar framsóknarmanna á mánudaginn var. Þá var það m.a. rætt að tíminn væri orðinn skammur, það væru mörg ágreiningsmál eða a.m.k. nokkur sem kölluðu á umræðu. Þar var líka rætt að það væru mörg mál sem þingnefndir hefðu afgreitt út í þingsal til atkvæðagreiðslu þar sem í rauninni væri verið að takmarka málfrelsi þingmanna, því að þeir eiga svo sannarlega líka rétt á því að taka til máls í málum þó að það séu ekki ágreiningsmál, og af hálfu stjórnarliða væri þetta ekkert betur þokkað eða betur liðið en af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna. Niðurstaða þessarar umræðu í þingflokki Framsóknarmanna var sú að mér var falið sem fulltrúa flokksins í forsætisnefnd að taka þetta mál upp í forsætisnefnd strax að loknu þingi núna og sjá hvort ekki næðist samstaða innan forsætisnefndar um að fara í þá vinnu að endurskoða starfstíma Alþingis. Svo vil ég halda því til haga, herra forseti, að við erum að tala hér um starfstíma Alþingis. Starfstími Alþingis er engan veginn það sama og starfstími þingmanna. Þingmenn eru að störfum allt árið. Alþingi kemur saman nokkra mánuði á ári eins og starfsáætlun kveður á um, en hins vegar er starfstími þingmanna 12 mánuðir ársins. Ég held að flestir þingmenn þekki það og vinni þannig.

Búið var að ganga frá samkomulagi með aðkomu allra flokka á þinginu um að ljúka þinghaldinu í dag og þó að þessi umræða sé vissulega þörf, og mér heyrist flestir vera sammála um að það kalli á einhverjar breytingar, kemur hún mér svolítið spánskt fyrir sjónir á þessum tímapunkti.