131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Loftferðir.

699. mál
[14:57]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég met alveg afstöðu þeirra tveggja hv. þingmanna sem hér hafa talað, bæði Jóns Bjarnasonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Sérstaklega kemur þar 9. gr. inn í málið.

Nú er það svo að í nefndinni varð umræða um það hvort ekki væri rétt að bíða eftir alþjóðasamþykkt sem væntanleg hlýtur að vera um vopnaða verði um borð í flugvélum. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Hitt er annað mál að í ljósi þess að líklega eru 80 eða 90 þotur og breiðþotur skráðar í íslenska flugflotann í mjög margvíslegum verkefnum úti um allan heim er þetta mál sem gæti skipt verulegu máli hvað varðar skráningu flugvéla á Íslandi svo og líka flugreksturinn almennt. Auðvitað er enginn sáttur við það ástand að vopnaðir verðir verði um borð í flugvélum en það er þegar orðið í nokkrum löndum. Með því ákvæði sem hér er sett inn um að ekki verði frá því gengið nema í sátt og samlyndi við aðila eins og að þrjú ráðuneyti komi þar að, flugfélög óski eftir því — auðvitað koma þá flugmenn að þessu líka til að það megi verða — held ég að hér sé mjög varlega stigið til jarðar í þessu annars óskemmtilega máli sem við komumst því miður ekki hjá að hafa einhverjar reglur um ef til þessa óyndisúrræðis þyrfti að grípa. Ég tel að þetta sé nauðsynlegt ákvæði og vona hins vegar að til þess þurfi aldrei að grípa.