131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[17:55]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegsnefnd hefur fjallað um frumvarp um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Það kom í ljós við 1. umr. að ágreiningur er um málið og skilaði meiri hluti sjávarútvegsnefndar einu áliti en minni hlutinn skilar tveimur álitum.

Í frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að heimilt verði að meta meðafla við veiðar á uppsjávarfiski til aflamarks fiskiskipa með ákveðnum hætti og hins vegar að gerðar verði nokkrar breytingar á framkvæmd leyfissviptinga vegna veiða umfram veiðiheimildir. Rekja má breytingar um hvernig meðafli skuli metinn til tillagna Landssambands íslenskra útvegsmanna og umgengnisnefndar. Þar voru allir aðilar sammála og því er frumvarp þetta gert í góðri sátt við fulltrúa hagsmunaaðila. Ég er einnig sammála því að sú stefna á að vera að á öllum þeim tegundum þar sem aflamark er þurfi aðilar að hafa heimildir fyrir veiðum hvort sem um beinar veiðar er að ræða eða meðafla. Einnig hefur verið starfandi nefnd sem vinnur að úttekt á starfsumhverfi í sjávarútvegi og breytingartillögur um framkvæmd leyfissviptinga verða að mestu raktar til tillagna frá þeirri nefnd. Hún lagði til að skoðað yrði hvernig einfalda mætti með hvaða hætti Fiskistofa tilkynnti útgerðum um veiðar umfram veiðiheimildir auk þess sem útgerðum yrði gert skylt að greiða slíkan kostnað. Fiskistofa hefur síðastliðin tvö ár, í samvinnu við Hafrannsóknastofnun, fylgst vel með löndunum á uppsjávarfiski. Samkvæmt þeim tölum er ljóst að á síðustu kolmunnavertíð hefur meðafli aukist töluvert. Þar kemur fram að meðafli þorsks í kolmunnaveiðum var 156 tonn árið 2003 en fór í tæp 1.700 tonn árið 2004. Jafnframt hefur meðafli ufsa í kolmunnaveiðum aukist úr rúmum 1.600 tonnum í tæp 2.100 tonn. Hér er um töluverða aukningu að ræða. Spurning er hvort hægt verði að minnka þennan meðafla bolfisks í kolmunnaveiðum.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu eru ástæður þess að lagt er til að horfið verði frá því að krefjast þess að meðafli sé flokkaður skilyrðislaust við veiðar á uppsjávarfiski fyrst og fremst tvær: Í fyrsta lagi er ljóst að mörg skipanna eru vanbúin til að hirða þennan fisk, halda honum aðskildum frá öðrum afla og ganga þannig frá honum að hann nýtist til manneldis. Í öðru lagi liggur fyrir að stundum er sá fiskur sem fæst sem meðafli litlu eða engu verðmætari en bræðsluafli, bæði vegna lítilla gæða og smæðar. Því er lagt til að tekin verði upp aðferð til að meta meðafla með nákvæmum hætti og reikna hann til aflamarks viðkomandi skips. Með því vinnast nákvæmar upplýsingar sem munu liggja fyrir um magn meðafla sem reiknast til aflamarks veiðiskips og hefði í för með sér að skipstjórar munu forðast meðafla eða taka þann kostinn að skilja hann frá öðrum afla og nýta hann á arðbærasta hátt. Í þriðja lagi hafa verið gerðar tilraunir með skiljur í flotvörpum sem skilja eiga úr lifandi meðafla. Ég hef rætt við skipstjóra sem notað hefur þessar skiljur og tekið þátt í tilraunaverkefni og segir hann mér að þetta verði mikil bylting og meðafli verði hverfandi eftir að þær verði komnar í gagnið. Jafnframt hefur verið reynt að koma í veg fyrir meðafla með eftirliti svo og lokun veiðisvæða.

Virðulegi forseti. Gagnrýni á frumvarpið er ekki óeðlileg. Samt sem áður vekur það athygli hve langt er á milli fulltrúa minni hlutans í sjávarútvegsnefnd samkvæmt þeim minnihlutaálitum er fyrir liggja. Ég er sammála hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni í nefndaráliti hans að vandamálið sé hverfandi miðað við heildarafla kolmunna. Samt sem áður finnst mér mikilvægt að allur fiskur sem er í aflamarkskerfinu komi fram, þ.e. sé sýnilegur. Hér er verið að leysa úr erfiðu máli í áranna rás og mikil og góð samstaða hefur náðst um það sem fram kemur í frumvarpi þessu.

Það sem eru meginatriði þessa máls er að í gildandi lögum er sú ófrávíkjanlega krafa gerð að afli sé flokkaður eftir tegundum fyrir löndun og vigtun. Við veiðar á uppsjávarfiski er næsta óframkvæmanlegt að flokka meðafla frá auk þess sem það er í mörgum tilvikum algerlega ópraktískt. Því er brýnt að breyta lögunum og enginn hefur bent á betri lausn en hér er lögð fram.

Lagabreytingar stuðla að ábyrgum veiðum og tryggja að upplýsingar liggi fyrir um magn meðafla. Þær tryggja jafnframt ákveðið samræmi og jafnræði þar sem meðafli reiknast til kvóta. Um ofangreind atriði eru allir þeir sem komið hafa að þessu máli sammála. Má þar nefna fulltrúa sjómanna, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands auk stjórnar LÍÚ sem ítrekað hefur lagt til að þessi aðferð verði tekin upp. Hafa fiskifræðingar Hafró og eftirlitsmenn Fiskistofu verið því sammála.

Í frumvarpinu er skýrt hvers vegna nauðsynlegt er að ákveðið lágmarksverð komi til greiðslu vegna umframveiði og eru þau rök áréttuð hér. Það er rétt sem fram kemur í minnihlutaáliti hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar að það flækir nokkuð málið að veiðar íslenskra skipa fara að hluta til fram utan lögsögu Íslands og að færeysk skip stunda veiðar innan lögsögunnar. En hvernig farið verður með meðafla íslenskra skipa innan lögsögu Færeyja og meðafla færeyskra skipa innan íslenskrar lögsögu er mál sem aðeins hefur verið rætt við Færeyinga og þarf að taka sérstaklega upp þegar frumvarp þetta verður orðið að lögum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra en kynna nefndarálit meiri hluta sjávarútvegsnefndar um frumvarpið:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti og Hrafnkel Eiríksson frá Hafrannsóknastofnuninni. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Félagi kvótabátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi smábátaeigenda og Hafrannsóknastofnuninni.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði við veiðar á uppsjávarfiski að meta magn meðafla með sýnatöku og reikna hann til aflamarks fiskiskips á þeim grundvelli. Felur breytingin í sér frávik frá þeirri meginreglu laganna að flokka beri allan afla um borð í fiskiskipum og landa honum þannig. Í athugasemdum með frumvarpinu eru tilgreindar ástæður þess að rétt þykir að víkja frá þessari meginreglu við þessar veiðar og tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem þar koma fram. Þá eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar sem lúta að framkvæmd leyfissviptinga vegna veiða umfram veiðiheimildir.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið rita Guðjón Hjörleifsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Dagný Jónsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Una María Óskarsdóttir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr.