132. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Kosning forseta.

[14:42]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Ég þakka hæstvirtum starfsaldursforseta, Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra, þau hlýju orð sem hann mælti í minn garð. Ég þakka einnig háttvirtum alþingismönnum það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að kjósa mig forseta Alþingis; ég met það mikils. Ég á þá von heitasta á þessari stundu að góð samvinna og sáttfýsi ríki um stjórn þingsins jafnvel þótt tekist verði á um mál sem fyrir Alþingi verða lögð á þeim vetri sem í hönd fer. Við þetta tækifæri vil ég færa fráfarandi forseta Alþingis, Halldóri Blöndal, hv. 2. þm. Norðaust., þakkir fyrir störf hans á þeim rúmlega sex árum sem hann hefur gegnt forsetaembættinu á Alþingi. Í embættistíð Halldórs Blöndals hafa orðið mikil umskipti í húsnæðismálum Alþingis. Vestan við Alþingishúsið er risin nýbygging og á þinghúsinu sjálfu hafa verið gerðar gagngerar endurbætur á síðastliðnum þremur árum. Var verkalokum fagnað fyrir stuttu. Það er sérstaklega ánægjulegt að nú hafa aðgengismál fatlaðra verið leyst á viðunandi hátt og til frambúðar í þinghúsinu. Eftir er þá utanhússviðgerð að hluta, svo og endurnýjun loftræstikerfis, og raunar eitthvað smálegt að auki, en mikið er af og vil ég færa forvera mínum þakkir fyrir ötula forustu um þessi verk. Það verður svo hlutverk nýrrar forsætisnefndar að halda áfram uppbyggingarstarfi á Alþingisreitnum.

Eins og fram kom í máli starfsaldursforseta áðan verða allnokkrar breytingar á skipan Alþingis, nú þegar það kemur saman á ný. Þrír alþingismenn hverfa af þingi. Allir skilja þeir eftir góða minningu um samstarf við þá undanfarin ár. Við alþingismenn óskum þeim allra heilla. Einn þeirra er formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, sem hefur átt sæti hér á Alþingi um 14 ára skeið, lengst af sem forsætisráðherra og forustumaður þingmeirihlutans. Persónulega þakka ég honum fyrir gott samstarf sem við höfum átt, bæði hér á Alþingi og í ríkisstjórn. Um það verður varla deilt að nú kveður Alþingi afar áhrifamikill stjórnmálamaður. Hann hefur stjórnað þjóðarskútunni lengur en aðrir og það á miklu breytingaskeiði í íslensku samfélagi. Ég óska honum velfarnaðar í nýju og ábyrgðarmiklu starfi og honum og fjölskyldu hans alls hins besta á komandi árum.

Þingsetning í dag hefur farið fram samkvæmt hefð og venju. Svo hefur verið síðan hið endurreista Alþingi hóf að starfa í Reykjavík í júlí 1845. Athöfnin er að sönnu látlaus og virðuleg.

Margt hefur breyst á þessum 160 árum. Þá komu saman 25 alþingismenn, allir af sama kyni. 70 ár liðu þar til konur hlutu kosningarrétt, árið 1915, og við fögnuðum einmitt 90 ára afmæli þeirrar réttarbótar í sumar. Og nú er komin á vegg hér í Alþingishúsinu mynd af fyrstu konunni sem tók sæti á Alþingi, hinn 15. febrúar 1923, Ingibjörgu H. Bjarnason. Hlutur kvenna í þingliði var þó furðulega lítill fram yfir 1980. Þó að hlutfall kvenna í þingsal sé nú réttur þriðjungur, og með því hæsta sem gerist í þjóðþingum, má að mínum dómi gera enn betur.

Alþingi er í senn æðsta og elsta stofnun þjóðarinnar. Saga þess er bundin Þingvöllum órjúfanlegum böndum. Á mikilvægum stundum í lífi þjóðarinnar hefur Alþingi komið saman á Þingvöllum. Ég tel að það sé brýnt að treysta böndin milli Alþingis og Þingvalla. Alþingi á að hafa hús eða aðstöðu á Þingvöllum til þess að geta tekið á móti gestum þingsins og til þess að halda smærri fundi til hátíðabrigða. Þannig mætti minna oftar og meira á hina löngu og einstæðu sögu Alþingis sem við erum svo stolt af.

Starfshættir Alþingis eru sífellt umhugsunarefni þeirra sem stjórna hér málum. Um það getur enginn farið í grafgötur að margt má bæta og mörgu breyta í því efni. Ég vil lýsa vilja mínum til þess að eiga samvinnu við alla þingflokka um breytingar á þingsköpum með það að leiðarljósi að færa vinnubrögð okkar nær því sem tíðkast í samtímanum og svara þeirri gagnrýni á störf okkar sem er borin fram með rökum og af velvilja og heilindum. Mikilvægt er þó að þingflokkarnir móti hugmyndir sínar fyrst svo að skýrt komi fram hverju menn vilja breyta. Venja er fyrir því að reyna að ná samkomulagi og sem breiðastri samstöðu meðal þingmanna um slíkar breytingar. Fyrir um þremur til fjórum áratugum varð þingmennska að aðalstarfi, en svo hafði ekki verið áður fyrr, heldur var þingseta aukastarf kjörinna fulltrúa af öðrum sviðum þjóðlífsins. Starfsaðstaða og starfskjör alþingismanna hafa einnig batnað að miklum mun á þessum tíma. Samt sem áður hefur umgjörð þinghaldsins ekki breyst mikið. Þannig hefur t.d. starfstími þingsins verið hinn sami frá stríðslokum og er nokkru skemmri hér en í nálægum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Þar skeikar um 4 til 8 vikur.

Þótt mikilvægt sé fyrir stofnun eins og Alþingi að halda fast í hefðir og venjur verður þingið eigi að síður að laga sig að tíðaranda og þjóðlífsbreytingum hverju sinni. Hugmyndir um breytingar í þessum efnum eru ekki nýjar af nálinni, en eru jafngóðar fyrir því, og vert að kanna þær nánar. Við skulum þó hafa í huga að það er eðli þessa starfs að þingmenn verða stundum að leggja á sig langar fundasetur, fram á kvöld og nótt, þegar nauðsyn kallar á, og hætt er við því að svo verði oftar en ella meðan ræðutími þingmanna er ótakmarkaður. Þingfundadagar eru hér á Alþingi nálega jafnmargir og annars staðar á Norðurlöndum, þingfundir jafnlangir í klukkustundum mældir og álíka mörg lagafrumvörp eru afgreidd. Hér, hins vegar, ríkir með öðrum orðum meiri vertíðarstemmning en hjá frændum okkar.

Alþjóðlegt samstarf hefur aukist mikið á undanförnum árum eins og flestum er kunnugt. Þessi breyting hefur náð til Alþingis eins og margra annarra stofnana samfélagsins. Alþingi hefur regluleg samskipti við mörg erlend þjóðþing, og þingið er þátttakandi í margvíslegum alþjóðlegum þingmannasamtökum. Margir þingmenn verja því drjúgum tíma til starfa á alþjóðlegum vettvangi. Ég fagna þessari þróun og tel að alþingismenn eigi þar mikinn þátt í að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri, og veiti jafnframt stjórnmálamönnum færi á að víkka sjóndeildarhring sinn og safna nýrri reynslu sem kemur þeim til góða við störf á Alþingi. Nýlega var haldinn í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York alþjóðlegur fundur forseta þjóðþinga til þess m.a. að ræða um hlutverk þinganna í alþjóðlegu samstarfi. Það er ljóst af niðurstöðum þess fundar að alþjóðlegt starf þingmanna mun aukast á næstu árum og við verðum að ætla því þann sess í þingstarfinu sem því ber.

Það skiptir Alþingi og alþingismenn miklu máli að viðhorf landsmanna til þingsins og stjórnmálamanna sé jákvætt, byggt á þekkingu og heilbrigðum væntingum. Alþingi á að leggja sitt af mörkum til að bæta hér um. Vissulega hefur margt ágætt verið gert, hingað í Alþingishúsið koma árlega þúsundir skólanema og annarra gesta og margvíslegt upplýsingarefni er gefið út. Laugardaginn 23. september síðastliðinn komu t.d. hingað í Alþingishúsið rösklega 2.500 manns á fimm tímum til þess að sjá endurbæturnar á húsinu. Þetta sýnir áhuga almennings, og þeim sem tóku á móti þessu fólki ber saman um að ánægju og góðan hug hafi mátt lesa úr nær hverju andliti. En ég hygg að betur megi gera. Til þess höfum við sífellt öflugri samskiptatæki. Við þurfum að gera aðgang almennings að skjölum og gögnum þingsins á vef þess auðveldari, við eigum að opna Alþingishúsið oftar og bjóða þannig til samfunda og samtala við þingmenn hér og ég tel að Alþingi, í samvinnu við fræðsluyfirvöld, eigi að beita sér fyrir sérstakri fræðslu meðal skólanema um löggjafarstörf, og efla þannig skilning og þekkingu þeirra á stjórnskipulagi okkar, starfsháttum Alþingis og lýðræðislegum vinnubrögðum. Ég heiti á stuðning ykkar til þess. Almenn þátttaka í stjórnmálum og almenn þátttaka í kosningum er vitaskuld undirstaða lýðræðis í landinu. Þann almenna áhuga, sem við á Íslandi búum við, megum við ekki missa niður á það stig sem er víða annars staðar.

Ég endurtek svo þakkir mínar til þingheims fyrir að fela mér að gegna forsetaembættinu. Það er ásetningur minn að eiga gott samstarf við alla háttvirta þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa.