132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:14]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Fyrir tæpum hálfum mánuði voru kynntar niðurstöður í samkeppni um tónlistar- og ráðstefnuhús sem mun rísa í Reykjavík á komandi árum. Í mínum huga markar þetta hús mikil tímamót. Það er tákn nýrra tíma, nýrrar aldar, þar sem menntun, menning og fjölbreytni mun ráða ríkjum, þar sem samkeppnisstaða þjóða mun styrkjast ef fagmennska og framsækni fær að njóta sín en veikjast ef stundarhagsmunir og smásálarháttur fær að ríkja.

Samstarf okkar besta fólks á sviði lista, hönnunar og viðskipta og góður stuðningur stjórnmálamanna úr öllum flokkum var til fyrirmyndar. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið er til marks um hverju hægt er að áorka þegar stjórnmálamenn hafa skýr markmið.

Ný öld mun gera allt aðrar kröfur til okkar en sú sem liðin er. Hún mun færa okkur ný tækifæri en líka nýjar ógnanir. Þá mun skipta okkur máli að þekkja styrk okkar og veikleika sem þjóðar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að smæð samfélagsins er þar í lykilhlutverki. Smæðin hefur alið af sér einstaklinga með sterka sjálfsmynd og gott frumkvæði. Hún hefur aukið samheldnina og tilfinninguna fyrir því að við eigum að deila kjörum hvert með öðru, að við höfum öll hlutverki að gegna.

En smæðin og návígið er líka höfuðorsökin fyrir þeirri þröngsýni og þeim sundurlyndisfjanda sem stundum geisar í íslensku samfélagi þegar sært stolt, persónuleg óvild, pólitísk samtrygging eða andúð, nær að slíta sundur friðinn. Við höfum orðið vitni að slíkum ófriði oftar en góðu hófi gegnir á síðastliðnum þremur árum. Oft hafa menn ekki skeytt um heiður eða sóma, grundvallarlög eða leikreglur, orðstír þings eða þjóðar. Íraksstríðið, eftirlaunamálið, skipan hæstaréttardómara, fréttastjóramálið, málskotsréttur forseta, fjölmiðlamálið, olíusamráðið og Baugsmálin. Þessi mál eru of mörg á of stuttum tíma. Þau hafa alið á óvild og tortryggni sem gegnsýrir og veikir allar helstu stofnanir samfélagsins, og miklu veldur sá sem upphafinu veldur. Íslenskt samfélag þarf ekki á þessu að halda.

Góðir landsmenn. Nú eru rúm fimmtán ár liðin frá því að verkalýðshreyfing, atvinnurekendur og stjórnvöld náðu tökum á verðbólgunni með þjóðarsáttarsamningunum. Þá fyrst fór hugtakið „stöðugleiki“ að heyrast í íslenskum stjórnmálum og var réttnefni um það afrek sem þjóðarsáttin var. Ég hygg, góðir landsmenn, að núna eigið þið mörg hver erfitt með að átta ykkur á klisjukenndu tali landsfeðranna sem segjast verja stöðugleikann. Hvaða stöðugleika?

Forsætisráðherra var á þessum nótum í ræðu sinni og dró upp mynd af sýndarveruleika. Raunveruleikinn er allt öðruvísi, blikurnar hrannast upp. Viðskiptahallinn hefur aldrei verið meiri síðan mælingar hófust. Útflutningsgreinar eru í bráðum vanda. Greiningardeildir banka spá allt að 8% verðbólgu. Öll met hafa verið slegin í skuldasöfnun sem leggst þyngst á heimilin og ungt fólk. Forsendur kjarasamninga eru að bresta. Þessar staðreyndir gefa hvorki mynd af aðhaldssamri né ábyrgri fjármálastjórn. Í raunveruleikanum er stöðugleikinn í uppnámi.

Hún var ekki ánægð með stöðugleikann, gamla konan sem hringdi í mig í dag. Hún sagði að þrátt fyrir allt sem hún hefði lagt af mörkum í íslensku samfélagi liði sér eins og niðursetningi. Er það stöðugleiki þegar um 16 þúsund lífeyrisþegar hafa minna en 110 þús. kr. á mánuði sér til lífsviðurværis og borga af því 14% í skatt? Er það til marks um stöðugleika að sú kynslóð sem nú er að hefja búskap sinn byrjar með þyngri skuldabagga en nokkur önnur kynslóð á undan henni? Er það stöðugleiki að kynslóðin sem átti að njóta góðs af 90% lánum og lægri húsnæðisvöxtum þurfi að greiða 35% hærra verð í dag fyrir sína fyrstu íbúð en hún þurfti að gera fyrir ári? Er það til marks um stöðugleika að fjórðungur ungmenna fái ekki menntun við sitt hæfi og 40% fólks á vinnumarkaði skuli án viðurkenndrar framhaldsmenntunar? Það er kannski eins konar stöðugleiki.

Frú forseti. Forsætisráðherra var fáorður um þetta í ræðu sinni. Hann minntist ekki einu orði á hvernig hann ætlaði að takast á við vaxandi ójöfnuð í íslensku samfélagi. Ég fullyrði að þessi ójöfnuður er stærsta ógnin við stöðugleikann. Hann vegur að styrk íslensks samfélags.

Samfylkingin mun því í vetur leggja áherslu á fjölmörg mál sem munu stuðla að nýrri tegund stöðugleika, stöðugleika sem byggir á jafnræði þegnanna og jöfnun tækifæra. Við höfnum skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem gerir best við þá sem mest hafa, sem færir milljónkrónamanninum 90 þús. kr. á mánuði í skattalækkun en einstæðu foreldri 10 þús. kr. Þessi skattastefna stríðir gegn hugmyndum þjóðarinnar um samkennd.

Samfylkingin telur réttlátara að bæta fremur hag láglaunafólks og barnafólks með lækkun matarskatts, óbreyttum vaxtabótum og hækkun barnabóta. Við viljum að bætur lífeyrisþega verði hækkaðar um 12 þús. kr. á mánuði til að leiðrétta þá kjaraskerðingu sem þeir hafa orðið fyrir í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Við leggjum fram viðamiklar tillögur í menntamálum sem munu auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að búa sig undir framtíðina og takast á við nauðsynlegar breytingar á atvinnuháttum. Við gerum tillögur um breytingar á stjórnkerfinu sem stuðla að gegnsæjum og heiðarlegum stjórnarháttum þar sem fólki, atvinnugreinum eða fyrirtækjum er ekki mismunað.

Ríkisstjórnin virðist ekki skilja nýja hagkerfið eða nýja atvinnulífið. Klisjan um að viðhalda stöðugleika, án þess að henni sé fylgt eftir með aðgerðum, er orðinn helsti fjötur fagmennsku og framsækni í íslensku atvinnulífi. Hún er skálkaskjól agaleysis í ríkisfjármálum og andvaraleysis um afleiðingar eigin gerða, hvort sem þær lúta að stórum innspýtingum inn í hagkerfið eða hvatningu til ungs fólks um að skuldsetja sig. Lúnir landsfeður vilja halda jól allt árið og gefa gjafir.

Fimmtán árum eftir þjóðarsáttarsamninga þarf nýja hugsun og raunverulegan skilning á því hvernig samkeppnisstaða landsins muni styrkjast. Hæstv. ríkisstjórn verður að vakna ef ekki á illa að fara.

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið, sem ég talaði um í upphafi máls míns, er táknmynd um samvinnu ólíkra afla þar sem framsýni og fagmennska ræður för. Ríkisstjórnin hefur á valdi sínu að fjölga slíkum táknum.

Við lifum í opnu, alþjóðlegu samfélagi. Okkur mun vel farnast ef við ræktum samheldni og jöfnuð í stað þess að ala á sundurlyndi og ójöfnuði. Þjóðin er löngu orðin þreytt á því ástandi og andrúmslofti sem hér hefur ríkt á undanförnum árum. Rætur þess liggja hingað. Ríkisstjórnin á næsta leik. — Góðar stundir.