132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:59]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Frú forseti. Góðir áheyrendur. Á nýjum lista Sameinuðu þjóðanna, þar sem ríkjum heims er raðað eftir lífskjörum, er Ísland í öðru sæti. Í könnun Viðskiptaháskólans í Sviss er Ísland í fjórða sæti á lista yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims í samanburði 60 landa og í efsta sæti í Evrópu. Alþjóðaefnahagsstofnunin mælir samkeppnisstöðu 117 hagkerfa og er Ísland í sjöunda sæti og hefur hækkað um 18 sæti síðan árið 1995 þegar samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hófst. Samt talar stjórnarandstaðan hér á Alþingi eins og allt sé að fara norður og niður og Steingrímur J. Sigfússon sér nú bara svart.

Í könnun Alþjóðabankans sem tók til þess hvar viðskiptaumhverfi væri einfaldast eða vænlegast lenti Ísland í ellefta sæti. Atvinnuleysi mælist lægst hér á landi innan allra Evrópuríkja og þótt víðar væri leitað. Í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um rannsóknir og þróun kemur í ljós að íslensk stjórnvöld leggja hlutfallslega mest til þessara mála af Norðurlöndunum. Samt talar stjórnarandstaðan um að stjórnvöld sjái ekkert nema stóriðju.

Nýleg samanburðarrannsókn bendir til þess að stjórnarfarslegur stöðugleiki — hvaða stöðugleiki? sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hérna áðan — að stjórnarfarslegur stöðugleiki sé hér sá mesti sem þekkist. Samkvæmt nýrri skýrslu frá Alþjóðaefnahagsstofnuninni erum við Íslendingar í þriðja sæti á eftir Svíþjóð og Noregi þegar skoðuð er staða þjóða í jafnréttismálum. Í enn einni könnuninni kom í ljós að Ísland er ásamt Danmörku í fjórða sæti yfir þau lönd þar sem spilling er talin minnst. Samt talar stjórnarandstaðan sífellt um að spilling tröllríði hér öllu. Já, það er oft skrýtið að hlusta á stjórnarandstöðuna hér á Alþingi en glöggt er gestsaugað.

Allar þessar kannanir sýna að Ísland er á heimsmælikvarða í samanburði þjóðanna. Heldur einhver að það sé tilviljun? Samkeppnisstaða Íslands byggir á réttum ákvörðunum sem m.a. hafa verið teknar af stjórnvöldum.

En eins og kom fram í máli forsætisráðherra áðan má gera enn betur og því er ánægjulegt að geta greint frá auknum fjármunum til ýmissa framfaramála, m.a. í framhaldi af sölu Símans, og mun ég einkum ræða um þá þætti sem snúa að atvinnumálum, þ.e. framlag til nýsköpunar og sprotastarfsemi.

Er það ekki skemmtileg staðreynd að aðalfundur iðnrekenda hjá gömlu herraþjóðinni, Dönum, sem haldinn var í síðustu viku, hafi snúist um það m.a. hvernig við Íslendingar förum að því að ná þeim árangri sem raun ber vitni? Það sem Dönum þykir til fyrirmyndar á Íslandi er m.a. hagstætt skattaumhverfi, ríkur frumkvöðlakraftur og langur starfsaldur. Danskir iðnrekendur hafa reiknað út að ef Danir ynnu jafnmikið og Íslendingar og væru jafnlengi á vinnumarkaði gætu tekjur danska þjóðarbúsins aukist um allt að 85 milljarða danskra kr. Dönum þykir lofsvert að á Íslandi er atvinnuþátttaka eldra fólks um 40% meiri en í Danmörku, eldra fólk hafi hér vinnu og atvinnuleysi sé lítið. Innan OECD er atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 60–69 ára hærri hér en alls staðar annars staðar.

Ef litið er nánar til nýsköpunar og frumkvöðlakrafts má segja að með lögum um vísinda- og tækniráð hafi umhverfi rannsókna og tækni verið breytt á þann veg að nú móta ráðherrar vísindasamfélagið og atvinnulífið, stefnuna, sameiginlega í málaflokknum. Ég fullyrði að þetta var mikilvæg breyting sem á eftir að skila sér í gríðarlegum framförum á sviði nýsköpunar.

Í tengslum við þessa breytingu var stofnað til Tækniþróunarsjóðs en hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar. Segja má að með tilkomu hans hafi náðst samfella í opinberum stuðningi frá því að hugmynd að vísindarannsóknum verður til og þar til ný söluhæf afurð er tilbúin til markaðssetningar. Framlög úr sjóðnum eru stigvaxandi og stefnt er að því að 500 millj. kr. verði ráðstafað úr sjóðnum árið 2007.

Þá er rétt að minnast frekar á þá mikilvægu ákvörðun stjórnarflokkanna að auka framlag til Nýsköpunarsjóðs um milljarða króna. Gangi samstarf við lífeyrissjóði og fjárfesta eftir mun eigið fé sjóðsins aukast um allt að fjórum milljörðum kr., sem mun hafa gríðarleg áhrif á atvinnusköpun í landinu. Lögð hefur verið áhersla á að nýsköpun nái til landsins alls og má m.a. nefna að í tengslum við byggðaáætlun var sett á laggirnar nýsköpunarmiðstöð á Akureyri sem hefur skilað miklum árangri og lagt er til að því starfi verði haldið áfram.

Góðir áheyrendur. Þegar á heildina er litið má segja að Ísland og Íslendingar séu stöðugt að auka þátttöku í alþjóðavæðingu á grundvelli bættra starfsskilyrða og aukinnar samkeppnishæfni. Þetta hefur skilað sér í meiri verðmætasköpun og bættum lífskjörum. Svo mun áfram verða ef við höldum vel á málum og nýtum kraft, þekkingu, hugvit og áræðni til að byggja upp fjölbreytta flóru atvinnutækifæra. Þá munu lífskjör hér á landi áfram verða með því besta sem þekkist í heiminum. — Ég þakka áheyrnina.