132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:14]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér þykir auðvitað vont ef hann verður fyrir vonbrigðum með mig en ég átti svo sem ekki von á að hann mundi hrósa mér mjög mikið, en þó gerði hann það og ég þakka fyrir það.

Hvort frumvarpið verði afgreitt óbreytt er auðvitað nokkuð sem kemur í ljós eftir að fjárlaganefnd hefur farið yfir málið. Það hafa oft orðið breytingar á fjárlagafrumvörpum í meðförum fjárlaganefndar og það hefur verið með ýmsum hætti gegnum tíðina eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir, enda á hann sæti í fjárlaganefnd.

Hann spyr hvort það sé sennilegt að við þurfum minna aðhald nú en árið 2000, ef ég tók rétt eftir. Sem svar við því vísa ég til þeirrar spár og áætlana sem liggja að baki frumvarpinu. Ég er í meginatriðum sammála þeim áætlunum eins og fram kom í ræðu minni. Ég get ekki svarað því öðruvísi. Í frumvarpinu felst töluvert aðhald en hvort það þurfi að vera minna eða meira munum við ræða okkar í milli. Ég stend hins vegar að þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir og ég tel að spárnar og það sem að baki liggur sé nægileg rök fyrir því sem þar kemur fram.