132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:42]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006, frumvarp sem einkennist fyrst og fremst af aðhaldi og ábyrgð, nú sem fyrr. Hæstv. fjármálaráðherra fór ágætlega yfir það fyrr í dag. Á uppgangstímum eins og nú eru er mjög mikilvægt að allir aðilar, hið opinbera, sem sagt ríki og sveitarfélög, og aðrir aðilar á markaði gæti aðhalds og sýni ábyrgð. Ég vil ekki gera lítið úr hlut þeirra. Við sem höldum utan um ríkisfjármálin höfum sýnt aðhald með niðurskurði í stofnframkvæmdum á vegum ríkisins. Það er líka mikilvægt að sveitarfélögin í landinu sýni aðhald og einnig aðilar á markaði.

Menn tala mikið um að ríkisstjórnin sýni ekki nægilegt aðhald og að hún þurfi að sýna enn meira aðhald en gengur og gerist. Ef við skoðum þá þróun sem hefur átt sér stað úti á markaðnum þá eru útlán bankanna frá ágúst 2004 til ágúst 2005 312 milljarðar, sem er hátt í öll fjárlög íslenska ríkisins. Erlendar skuldir íslenskra bankastofnana, að frádregnum eignum, voru um áramót 780 milljarðar kr. en eru í dag um það bil 1.050 milljarðar og breytast nú dag frá degi. Ef við setjum þetta í slíkt samhengi hljóta menn að sjá að það er ekki ríkið eitt sem ber ábyrgð á því hvernig þenslunni er nú komið. Ég dreg ekkert úr því að þensla er í íslensku samfélagi og öllum ber að stefna að því að draga úr henni til þess að varðveita stöðugleikann.

Hæstv. forseti. Því miður er það svo að stærstur hluti útgjalda ríkissjóðs er bundinn í kjarasamningum og rekstri ríkisstofnana. Það er því ljóst að ef fylgja á eftir aðhaldsskilaboðum sem komið hafa fram í dag frá hv. stjórnarandstöðu þarf að grípa til mikilla aðgerða. Segja þarf upp opinberum starfsmönnum í hundraðatali. Aðilar á markaði hafa tjáð okkur að ef ríkið ætlar að stunda hagstjórn á þessum markaði þurfum við að skera niður á bilinu 30–40 milljarða svo eitthvert mark sé takandi á. Hagkerfið er um 1.000 milljarðar kr. og 1 milljarður eða 5 milljarðar skipta engu máli í því samhengi. Það þurfa þá að koma til tuga milljarða króna tillögur. Ég hjó eftir því áðan að hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að Samfylkingin kæmi með niðurskurðartillögur sem mundi væntanlega muna um við 2. umr. fjárlaga. Ég mun bíða eftir þeim niðurskurðartillögum í ljósi þess að rekstur ríkissjóðs er að 70–80% leyti múlbundinn og menn skulu þá finna þessi fitulög upp á 30–40 milljarða þannig að muni um. Ábyrgur flokkur eins og Samfylkingin hlýtur að fylgja þeirri ræðu sem hv. þm. Helgi Hjörvar flutti sem talsmaður Samfylkingarinnar í efnahagsmálum eða innan fjárlaganefndar.

Hæstv. forseti. Hagstjórnin hefur því verið ábyrg og aðhaldssöm. Kaupmáttaraukning hefur verið um 60% frá árinu 1995. Hvergi á Vesturlöndum hefur kaupmáttaraukning einnar þjóðar verið jafngríðarlega mikil og í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Nú standa yfir skattalækkanir og ég ætla að fara yfir þær í ræðu minni á eftir. Enginn stjórnarandstöðuþingmaður mótmælti þeim skattalækkunum, greiddi atkvæði gegn skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Það er því mjög áhugavert að hlusta á málflutning Samfylkingarinnar í dag um að nú þurfi að taka skattalækkunaráformin til endurskoðunar. Ég hjó eftir því að hv. þm. Helgi Hjörvar talaði um að við þyrftum að hækka enn frekar persónuafsláttinn. Hvaðan ætlar hv. þingmaður að taka þá fjármuni? Eigum við að minnka tekjuskattsprósentulækkunina sem Samfylkingin lofaði fyrir síðustu kosningar og sagði á hverjum fundinum á fætur öðrum að væri öflugasta vopnið til að minnka jaðaráhrifin í skattkerfinu? Sem er reyndar rétt.

Stefna Samfylkingarinnar í skattamálum er kapítuli út af fyrir sig. Í þeim umræðum sem átt hafa sér stað hér um skatta- og efnahagsmál á síðustu árum hefur Samfylkingin alloft gripið tækifærið og verið fylgjandi lækkun á tekjuskattsprósentunni, a.m.k. greiddi hún ekki atkvæði gegn þeim áformum ríkisstjórnarflokkanna. Það er vinsælt hjá Samfylkingunni að tala um gjaldfrjálsan leikskóla. Lækkun á virðisaukaskatti er skattalækkunaráform sem Samfylkingin talar um í nærri því hverri einustu ræðu um efnahagsmál, afnám stimpilgjalds og svo núna hækkun persónuafsláttar. Hvað þýðir þetta fyrir ríkissjóð? Þetta eru tuga milljarða króna skattalækkanir sem Samfylkingin hefur boðað út og suður. Ég fullyrði það að ef Samfylkingin færi með stjórn efnahagsmála væri hér allt í kaldakoli ef við hefðum samþykkt tillögur hennar í skattamálum. (EMS: Ertu bara farinn að rugla?) Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spyr hvort ég sé farinn að rugla og ég sé að hv. þingmanni líður ekki vel undir þessari ræðu því að sannleikanum verður oft hver sárreiðastur. Samfylkingin er einfaldlega út og suður í málflutningi sínum þegar að skattamálum kemur. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Af því að svo má skilja að Samfylkingin sé á móti því að við lækkum tekjuskattsprósentuna um 4% þá skulum við fara yfir hverjum það gagnast helst. Jú, ungu skuldsettu fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, oft og tíðum dýru húsnæði, er að koma úr kostnaðarsömu námi og er að hefja sitt líf. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar töluðu mjög hlýlega til þessa þjóðfélagshóps fyrir síðustu kosningar. Þetta fólk borgar gríðarlega háa skatta vegna þess að það er með háar tekjur. Það fær nærri því engar barnabætur og engar vaxtabætur vegna þess að það er með mjög háar tekjur. Hvað eigum við að gera til að koma til móts við þetta fólk? Það þarf að lækka tekjuskattsprósentuna. Þetta er fólkið sem lendir í viðjum jaðarskattsins sem ég man ekki betur en Samfylkingin talaði gegn fyrir síðustu kosningar. Ekki hefur Samfylkingin talað fyrir áhrifum jaðarskattsins á íslenskar fjölskyldur. Því miður heyrist mér í þessari umræðu að Samfylkingin sé á móti því að við lækkum tekjuskattsprósentuna og þá skal hv. þm. Helgi Hjörvar koma hér upp og segja að Samfylkingin sé á móti því, því þá er Samfylkingin að tala þvert um hug sér miðað við hvernig hún talaði fyrir síðustu alþingiskosningar.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að lausatök formanns Samfylkingarinnar á þingflokki sínum, og hef ég samanburðinn hér, virðast vera alger því fólk talar út og suður og erum við þó bara við 1. umr. fjárlaga og ég býst við að margar tillögur eigi eftir að koma frá Samfylkingunni í því skyni að auka útgjöld ríkisins. Ég kalla því eftir og fer ekki úr þessum sal fyrr en ég fæ svar við því hver stefna Samfylkingarinnar er í skattamálum. Það er prinsippatriði í stjórnmálum.

Því miður gefst mér ekki tími til að fara yfir hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð þeim árangri sem raun ber vitni á síðustu tíu árum, árangri sem við sjáum hvergi annars staðar viðlíka í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Mig langaði að koma inn á umdeilda sjávarútvegsstefnu, um það er þó stjórnarandstaðan sammála. Það er eina málið sem stjórnarandstaðan getur verið sammála um að auðvitað eigi að fyrna kvótaeign íslenskra fyrirtækja (Gripið fram í.) — það er nú svo glæsileg staðan hjá íslenskum fyrirtækjum. Íslensku sjávarútvegsfyrirtækin hafa skipt íslensku fjárlögin mikið, hv. þm. Jón Gunnarsson ætti að vita það manna best, hagvaxtaraukandi atvinnuvegur sem hefur skilað okkur gríðarlegum tekjum en stjórnarandstaðan var þó sammála um að reyna að leggja þann ágæta atvinnuveg í rúst. Það er kannski ágætt að fylgja þeim tillögum eftir miðað við það hagstæða umhverfi sem sjávarútvegurinn býr við.

Annað er atvinnuuppbygging á landsbyggðinni, uppbygging iðnaðar. Þar hefur Samfylkingin haft þrjár skoðanir, Vinstri grænir eru náttúrlega á móti, en allt þetta miðar að því að auka atvinnu hér á landi, auka tekjur ríkissjóðs. Þannig höldum við áfram að byggja upp velferðarkerfið en okkur greinir á um leiðirnar. Aðalatriðið er að stjórnmálaflokkar tali einum rómi, tali ekki út og suður og séu með endalaus pólitísk yfirboð eins og Samfylkingin hefur gert, t.d. í umræðu um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar í fyrra og hittiðfyrra. Ég tel því mjög mikilvægt að fá skýr svör frá hv. forustumönnum Samfylkingarinnar hér í þinginu.