132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:05]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var merkileg innkoma hjá hv. þingmanni Jóni Gunnarssyni. Ég veit ekki betur en að Samfylkingin hafi stutt þau fyrirheit okkar að gera leikskólann gjaldfrjálsan. Menn hafa slegið á að það séu um 5 milljarðar kr. (JGunn: Ég var að tala um matarskattinn.) Ég veit ekki betur en að Samfylkingin hafi líka talað um að lækka matarskattinn um ein 7%. Ég held að það séu aðrir 5 milljarðar kr. Hér kom hv. þingmaður og spilaði út einum 10 milljörðum, nema hann sé ekki sammála hinum félögum sínum í Samfylkingunni um að rétt sé að gera leikskólann gjaldfrjálsan í áföngum.

Ég spyr: Hefur hv. þingmaður ekki hlustað á talsmenn Neytendasamtakanna? Hafa neytendur notið þess að fullu að gengið hafi styrkst svona sem raun ber vitni? Hefur það skilað sér algjörlega í vasa neytenda? Nei, aldeilis ekki. Ætli það sé ekki einhver milliliður þarna á milli sem hirðir nú eina og eina krónu? En eins og við öll vitum hafa hv. þingmenn Samfylkingarinnar mikla trú á þeim aðilum. Hvort er þá betra að gera leikskólann gjaldfrjálsan í áföngum eða að lækka matarskattinn? Því að það er nú þannig að ríkissjóður er ekki botnlaus og við verðum að velja á milli aðgerða, en þetta er mjög einfalt hjá Samfylkingunni, hún vill bara hvort tveggja. Svo vill hún lækka stimpilgjöldin, sem eru nokkrir milljarðar til viðbótar, og við eigum væntanlega von á slíkum tillögum við 2. umr. fjárlaga.

Reyndar boðaði forustumaður Samfylkingarinnar aðhald í ríkisfjármálum þannig að ég veit ekki hvar þessi málflutningur Samfylkingarinnar endar. En í þessum tveimur andsvörum sem ég hef fengið hér og þeim ræðum sem Samfylkingin hefur flutt í dag þá kristallast það enn og aftur að hún talar út og suður.