132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Aðgangur að gögnum einkavæðingarnefndar.

[15:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta rökstyður, enn frekar en hingað til hefur legið fyrir, þörfina á að fram fari ítarleg og tæmandi opinber rannsókn á vinnubrögðunum í öllu þessu einkavæðingarferli. Það æpir allt á það þegar í ljós kemur hvernig að því hefur verið staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þessi leið er allt frá byrjun vörðuð aðfinnslum frá þeim aðilum sem yfir höfuð hafa komist að málinu eða fengið um það upplýsingar. Það kostaði eftirrekstur og klögumál að fá fyrstu og einu verklagsreglurnar settar, mörgum árum eftir að einkavæðingarferlið hófst. Enn hefur ekki verið settur lagarammi um hvernig farið skuli með þá miklu fjármuni sem menn hafa þar haft handa á milli.

Enn vantar skýringar á hver sé stjórnskipuleg staða framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Síðast í áliti Ríkisendurskoðunar nú í vetur sem leið er tekið fram að hún sé í lausu lofti. Hið sama má ráða af spurningum umboðsmanns til forsætisráðherra nýverið.

Það er von að maður spyrji hvort það sé pólitískur geðþótti sem kemur í staðinn fyrir ráðgjöf fyrirtækjanna þegar það gerist aftur og aftur að annaðhvort er ekkert gert með ráðleggingarnar eða hið gagnstæða er gert, eða heimtaðar nýjar niðurstöður af því að þær fyrstu voru ekki nógu þóknanlegar stjórnarflokkunum.