132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Lækkun matarskatts.

[15:46]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur legið fyrir nokkuð lengi að víðtæk sátt er um það í þinginu að lækka beri skatta af matvælum. Fyrir síðustu kosningar fóru allir flokkar fram með margvíslegar tillögur í skattamálum, ýmsar hugmyndir í skattamálum og a.m.k. tveir flokkar voru með þær hugmyndir að það bæri að lækka matarskattinn. Annars vegar Samfylkingin og hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn. Síðan hefur það legið í loftinu hér í þinginu að allvíðtækur stuðningur væri við að fara þá leið í skattamálum, m.a. vegna þess að ekki aðeins kemur sú leið vel út fyrir þá sem hafa lágar tekjur eða meðaltekjur, heldur líka er þetta leið sem getur slegið á þensluna. Lækkun matarskattsins um helming getur þýtt að neysluverðsvísitalan lækki um 0,9%. Samfylkingin hefur talað fyrir þessu í þinginu á síðasta ári og einnig á yfirstandandi ári. Síðan kemur í ljós að stuðningur virðist vera við þessa leið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þannig var talað við varaformann fjárlaganefndar á Stöð 2 í gærkvöldi um að fara þessa leið í skattamálum núna og hann endurtók það sem hann hefur kannski sagt áður að þetta væri mál sem sjálfstæðismenn hafi verið með, þeir vildu gjarnan lækka matarskattinn, og hann sagði, með leyfi forseta:

„Við höfum sagt að við ætlum að reyna að koma því að einhverjum hluta á, á þessu kjörtímabili“ sagði þingmaðurinn Einar Oddur Kristjánsson á Stöð 2 í gær.

Það er ekki mikill tími til stefnu. Það er annaðhvort að gera það núna við afgreiðslu fjárlaga að lækka matarskattinn eða að ári. Það er ekki öðrum tímapunktum til að dreifa ef það á að gera þetta á kjörtímabilinu. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé tilbúinn til samstarfs um að matarskatturinn verði lækkaður núna við afgreiðslu fjárlaga.