132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Meiðyrðalöggjöf og Lugano-samningurinn.

[15:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Nýfallinn meiðyrðadómur yfir Íslendingi í Bretlandi er um margt athyglisverður burt séð frá að í hlut eiga tvær ákaflega umdeildar persónur á Íslandi, þeir Jón Ólafsson kaupsýslumaður og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands.

Það sem hlýtur að vekja mesta athygli við dóminn og verða prófmál til framtíðar að mörgu leyti, lýtur að eðli eða inntaki netsins sem fjölmiðils. Það sem hér er undir og hlýtur í framtíðinni að skoðast sem prófmál snýr annars vegar að varnarþingum einstaklinga og hins vegar að netinu sem miðli. Heyra skrif á netinu alltaf undir tjáningarfrelsi eða meiðyrðalöggjöf þess lands sem sá sem birtir skrif á netinu býr í? Eða ræðst það af á hvaða tungu skrifin eru birt ef þau beinast gegn einstaklingi sem býr á því málsvæði sem tungan er töluð á? Í umræddum dómi yfir Hannesi Hólmsteini er um að ræða málssókn gegn Íslendingi á erlendri grund vegna ummæla sem falla á Íslandi.

Það sem gerir málið hins vegar snúið er ekki hin háa bótaupphæð í sjálfu sér heldur eðli netsins. Hvar féllu ummælin í rauninni? Hvar höfðu ummælin áhrif? Birti ég t.d. á heimasíðu minni ummæli á ensku sem þykja rógur eða níð um mann sem býr á ensku málsvæði og yrði sóttur til saka af viðkomandi, hvar á að sækja mig til saka? Því hlýtur að mega halda fram með rökum að birting á þeirri tungu geti valdið viðkomandi alvarlegum skaða á því málsvæði öllu, ekki bara á Íslandi, málsvæði sem í þessu tilfelli er ákaflega stórt þar sem um er að ræða enskuna rétt eins og væri rógur borinn á íslenskan mann búsettan í Frakklandi og ummælin birt á íslenskri heimasíðu á frönsku. Um þetta snýst málið. Hvað leyfist manni á internetinu?

Því vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann hyggist taka upp einhvers konar endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni í þessu ljósi þannig að menn vissu hvar þeir stæðu gagnvart slíku þar sem um er að ræða fordæmi og fordæmalaust mál að mörgu leyti. Einnig spyr ég um túlkun hans á Lugano-samningi um fullnustu á dómskröfum á milli landa í tilfelli sem þessu og lýtur að meiðyrðalöggjöf og hliðstæðum skrifum á netinu.