132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega útúrsnúningur á máli mínu að við teljum að þær framkvæmdir sem hér sé verið að ráðast í á hinn bóginn eða eyrnamerkja fé, séu ekki arðsamar eða góðar. Ég tók það einmitt sérstaklega fram að þetta væru allt saman meira og minna bráðþarfar og góðar framkvæmdir. Það er sjálfstætt ákvörðunaratriði í hverju tilviki ef menn vilja þá yfirleitt meta það reikningslega, t.d. hvað varðar byggingu hátæknisjúkrahúss. Erum við ekki sammála þar um að arðurinn komi fyrst og fremst í betri heilbrigðisþjónustu og vellíðan fólks að því leyti til?

Spurningin er þá bara sú: Erum við svo fátæk í dag að við getum ekki ráðist í þessar framkvæmdir, vegaframkvæmdir eða byggingu spítala nema að selja á móti Símann? Ég er að segja að við séum það ekki. Við höfum alla burði til að ráðast í þessar vegaframkvæmdir, byggja hátæknisjúkrahús og vonandi reka það, sérstaklega ef menn verða ekki búnir að rýja ríkissjóð af öllum tekjustofnun með skattalækkunum. Við þurfum ekki að selja frá okkur eign sem sér um sig og skilar góðum arði fái hún að halda áfram í okkar hendi.

Það er fullgildur málflutningur og að sjálfsögðu verðurðu alltaf að meta það ef þú ákveður að selja eitthvað úr þinni eigu, sérstaklega ef þú ert í atvinnurekstri, hvort það borgi sig miðað við þann arð og þann verðmætisauka sem þú þar með verður af borið saman við að eiga eignina áfram. Það tel ég að sé ekki vel grundað í þessu dæmi. Auðvitað eru t.d. samgönguframkvæmdirnar, og það vitum við vel, með því allra arðsamasta sem við getum ráðist í, það er yfirleitt ekki um það deilt, og þær eru þar fyrir utan mikilvægt innlegg í byggðapólitísku samhengi, umferðaröryggi og hvað það nú er.

Varðandi svo það að ríki eigi eða eigi ekki að vera í samkeppnisrekstri, þá notar hæstv. forsætisráðherra orðið „samkeppnisrekstur“. En erum við hér að tala um samkeppnisrekstur? Má ekki vefengja það? Hvað verður til með einkavæðingu Símans annað en grimmileg, einkavædd fákeppni og einokun? Það er einokun á grunnfjarskiptaneti landsins. Öðrum aðilum er að vísu tryggður þvingaður aðgangur að því en það er aðeins einn aðili sem á það og aðeins einn aðili sem hefur arðinn af starfrækslu þess, grunnfjarskiptanetsins, og nú er það einkaaðili.