132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:39]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi nú gert grein fyrir því að fjarskiptasjóði er ætlað að dreifa bæði GSM-símasambandi um landið og háhraðatengingum. Það er ekki gert ráð fyrir, af þessu tilefni, að taka sérstaklega á starfsmannamálum innan Landssímans enda væri það mjög sérkennilega ráðstöfun ef fjarskiptasjóður eða ríkisvaldið hlutaðist til um það hvernig Landssíminn stýrir málum sínum.

Við höfum á samkeppnismarkaði þó nokkur fyrirtæki sem sinna þessari þjónustu, sinna fjarskiptaþjónustu á ýmsum sviðum. Að gera ráð fyrir áframhaldandi ríkisrekstri á slíku fyrirtæki er nokkuð sem ég held að við getum verið sammála um að gangi ekki í nútímalegu markaðsvæddu samfélagi. Þess vegna var það náttúrlega, eins og margoft hefur komið fram, nauðsynleg ráðstöfun, að selja Landssímann, þannig að á þeim markaði ættu allir jafna möguleika, allir þeir sem sinna fjarskiptaþjónustu við landsmenn.