132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég er enginn áhugamaður um að pósturinn komi með mjólkurbílnum tvisvar eða þrisvar í viku. Að sjálfsögðu fagna ég öllum breytingum og framförum sem hafa orðið á Íslandi í tímans rás. Mér finnst þetta svolítill útúrsnúningur hjá hv. þingmanni.

Ég tel það hins vegar ekki, svo að ég snúi mér efnislega að röksemdum hv. þingmanns, hafa verið forsendu þess að jafna símkostnað að stofnunin yrði gerð að hlutafélagi. Ég var alveg sammála hv. þingmanni um að jafna símkostnaðinn. Ég var í liði með þeim sem vildu uppræta þau tregðulögmál sem þar voru fyrir hendi, hvort sem það var í embættismannakerfi eða í pólitík. Í því verkefni höfum við eflaust verið samherjar. En mér finnst rangt að gefa þá mynd að forsenda þess hafi verið sú að markaðsvæða fyrirtækið. Það er alveg fráleitt. Ég óttast að þegar fram líða stundir eigum við eftir að sjá meira af því sem upp hefur komið á Blönduósi og Siglufirði, þ.e. uppsagnir sem fyrirtæki kalla hagræðingu.

Munum við eftir hvað gerðist í strandsiglingunum? Þær eru búnar. Hvers vegna? Vegna þess að nýir eigendur eru komnir annað með peninga sína til að ávaxta þá.

Varðandi arðgreiðslurnar þá hafa þær frá árinu 1989 verið tæplega 1,5 milljarðar að meðaltali, eða samtals um 24 milljarðar á þeim tíma, samkvæmt upplýsingum í svari fjármálaráðuneytis frá því í fyrra eða fyrr á þessu ári. Ég hef þetta sundurliðað. Þar hafa geysilegir fjármunir komið inn í ríkissjóð skattborgurum til góða.