132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:57]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna ummælum hv. þm. Magnúsar Stefánssonar um aðhald í ríkisrekstrinum og eftirlitsstörf fjárlaganefndar. Ég vona að gott á vísi vegna þess að það er rétt hjá hv. þingmanni að nú virðist loks, eftir tugmilljóna króna útstreymi, upplýsingakerfi ríkisins vera farið að virka. Það skapar því alveg nýja möguleika fyrir nefndina til að fylgjast með framkvæmd fjárlaga sem auðvitað er full nauðsyn á. Ég trúi því og treysti að nýr hæstv. fjármálaráðherra fagni því líka að nefndin gangi í lið með honum við að reyna að auka agann í hinum opinbera rekstri og skapa þá virðingu sem fjárlög þurfa að njóta þannig að eftir þeim sé farið eins og öðrum lögum og að við náum að nálgast aðrar þjóðir í umgengni um þau lög.

Ég vil spyrja hv. þingmann vegna þess að hér var rætt örlítið um sendiráðin. Það er rétt að rifja upp að á undanförnu ári hafa verið skipaðir níu nýir sendiherrar. Það eru óvenju mikil afköst á því sviði. Í ljósi þess að þarna hefur verið um töluverða framúrkeyrsla að ræða í mörg ár er full ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að skipta upp fjárlagaliðnum en fyrir nokkrum árum síðan voru að beiðni ráðuneytisins öll sendiráðin sett undir einn fjárlagalið. Ég held að það skapi aðstæður sem ekki eru æskilegar, þ.e. þetta dregur úr því að auðvelt sé að sjá hvernig hvert sendiráð er að skila sér o.s.frv. Þetta er því eins og safnliður sem því miður virðist síðan alltaf fara úr böndum. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki tilbúinn að hugleiða það með okkur hvort ekki sé rétt að færa þetta aftur í fyrra horf.