132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Starfsumhverfi dagmæðra.

96. mál
[13:41]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg umræða en ég tel hins vegar að hv. þingmaður sé að ræða við rangan aðila. Dagvistarmál barna eru á ábyrgð sveitarfélaga ekki síst hvað varðar niðurgreiðslu á þjónustu eins og þingmaðurinn spurði sérstaklega um. Hún ætti því að beina orðum sínum og áhrifum til félaga sinna sem mynda t.d. meiri hlutann hér í Reykjavíkurborg.

Í Reykjavík er vandi fjölskyldna með lítil börn einna mestur og ekkert sveitarfélag hefur gengið jafnhart gegn sjálfstæðri starfsemi dagmæðra og Reykjavíkurborg. Það sést best á því að dagforeldrum hefur fækkað úr 210 í 140 eða um þriðjung í Reykjavík á síðustu fimm árum, þar af um 20 í sumar. Það stefnir í enn meiri fækkun og forsvarsmenn dagforeldra telja að ábyrgðin sé fyrst og fremst hjá borgaryfirvöldum. Valkostum fjölskyldnanna hefur verið fækkað og vandi þeirra eykst. Ég skora því á hv. þingmann að taka þetta mál upp við rétta aðila og þá sem raunverulega bera ábyrgð á slæmu starfsumhverfi dagmæðra.