132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Húsnæðismál geðfatlaðra.

145. mál
[13:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Nýlega kom fram að stór hópur geðfatlaðra, á að giska 100 einstaklingar, búa ekki í húsnæði við hæfi. Nefnt var að ástæða þess væri að félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti komi sér ekki saman um hver eigi að greiða fyrir þjónustu geðfatlaðra. Afleiðing þess er að fjöldi geðfatlaðra einstaklinga fær ekki úrlausn sinna mála og verður bitbein þessa ágreinings með þeim afleiðingum að þurfa að búa hjá ættingjum eða vinum eða á gistiheimilum. Afleiðing þessa ástands er líka það að hópur geðfatlaðra einstaklinga festist inni á sjúkrahúsi vegna þessa. Margir úr hópi geðfatlaðra flakka úr einum stað í annan vegna þessa sem kallar á mikið rótleysi og því þurfi geðfatlaðir að leita tíðar en ella á geðdeildir.

Í dagblaði nýverið kom fram að máli sama einstaklings sé vísað milli stofnana sem heyra undir sitt hvort þessara tveggja ráðuneyta og hliðstætt eigi sér stað milli félagsþjónustu sveitarfélaga og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra. Það er óþolandi, frú forseti, að geðfatlaðir þurfi að líða fyrir skörun á milli stofnana eða ráðuneyta sem bitnar síðan harkalega á þeim eða fjölskyldum þeirra. Það er líka vissulega mikið áhyggjuefni hve skortir mikið á alla eftirfylgni og þjónustu við geðfatlaða bæði á félags- og heilbrigðissviði eftir að meðferð t.d. á geðsviði Landspítalans lýkur.

Það fjármagn sem nú á að verja til að bæta þjónustu við geðfatlaða er vissulega mikið fagnaðarefni og mikilvægt er að því verði ráðstafað í fullu samráði við Geðhjálp, geðsvið Landspítalans og svæðisskrifstofur og að tekið verði mið af því þjónustumati sem gert var af félagsráðgjöfum á geðsviði Landspítalans varðandi þá 100 einstaklinga sem nú þurfa húsnæði, eftirfylgni og þjónustu eftir að meðferð lýkur. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig haldið verði á úthlutun þessa fjármagns og hvernig þeir aðilar sem ég nefndi muni koma að þeirri úthlutun og hvernig Alþingi muni koma að ráðstöfun þessara fjármuna.

Þrátt fyrir að þetta fjármagn liggi fyrir, sem ég fagna mjög eins og aðrir, liggja þó ekki enn fyrir skýr skil um hvernig kostnaðarskipting milli ráðuneyta heilbrigðis- og félagsmála eigi að vera þannig að deilur milli ráðuneytanna um það bitni ekki á geðfötluðum og aðstandendum þeirra eins og ég hef lýst. Þess vegna hef ég lagt þessa fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra:

Hver var niðurstaðan af samstarfi félagsmálaráðuneytisins við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um húsnæðismál geðfatlaðra, en tillögur um aðgerðir áttu að liggja fyrir í lok síðasta árs eða byrjun árs 2005?

Síðan spyr ég:

Er það rétt sem fram hefur komið opinberlega að félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið komi sér ekki saman um hver eigi að greiða fyrir þjónustu við geðfatlaða? Ef svo er, hvaða hugmyndir eru uppi um úrlausnir og hefur ágreiningurinn verið tekinn fyrir í ríkisstjórninni?