132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Einkareknir grunnskólar.

115. mál
[14:14]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er svarið athyglisvert sem hæstv. ráðherra gefur hv. fyrirspyrjanda við síðari spurningu hans, þ.e. spurningunni um hvort ráðherra telji að samræma eigi framlög til einkarekinna grunnskóla, takmarka eða banna innheimtu skólagjalda til viðbótar við opinbera framlagið. Hæstv. svaraði því afdráttarlaust neitandi. Mig langar þá að skjóta inn í viðbót við þessa spurningu hv. fyrirspyrjanda og spyrja hvort hæstv. ráðherra sjái ekki hættuna í því þegar einkaskólarnir geta tekið skólagjöld, mishá eftir atvikum, að þarna geti verið innbyggður möguleiki fyrir þá sem það vilja að búa til gap á milli þeirra sem mikil efni hafa í samfélaginu og hinna sem ekki hafa mikil efni.