132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[15:50]
Hlusta

Þórarinn E. Sveinsson (F):

Frú forseti. Þær spurningar sem hv. þm. Hjálmar Árnason tekur upp í fyrirspurn sinni utan dagskrár til hæstv. sjávarútvegsráðherra eru mikilvægar grundvallarspurningar og ég tek heils hugar undir þær allar. Nauðsynlegt er að velta fyrir sér svörunum og fara skipulega yfir þau gögn sem til eru og safnast hafa upp á liðnum árum, samræma þau og athuga hvort og hvað við getum lært af fortíðinni. Mikið efni er til hjá stofnunum sjávarútvegsins og nauðsynlegt er að fara skipulega yfir það með kannski svolítið öðrum hætti en við gerum oft þegar við erum að ákveða fiskveiðistjórnina, samræma það og athuga hvort og hvað við getum lært af fortíðinni og nota síðan þá þekkingu til að taka ákvarðanir um næstu fiskveiðistjórn. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið gert, þetta er það sem menn gera, en nú er komið efni til að skoða langan tíma aftur og byggja á því.

Það er auðvitað háalvarlegt mál ef við erum að ganga of nærri loðnustofninum með veiðum eða veiðitækni okkar eða öðrum aðgerðum. Ég vil ekkert fullyrða um að við gerum það en þetta er samt áleitin spurning eins og komið hefur fram í ræðum margra þingmanna. Það ýtir enn frekar undir nauðsyn þess að byggja á reynslu okkar í umgengni við þennan undirstöðuhlekk fæðukeðjunnar. Samkvæmt ársskýrslu Hafró hefur loðnuinnihald í maga þorsksins farið úr 40% niður í 10%. Sú staðreynd segir okkur, þó að ekki væru neinar aðrar staðreyndir, að þetta eru verulegar breytingar á lífríkinu og nauðsynlegt fyrir okkur að leita skýringa á því.

Um leið og ég óska nýjum sjávarútvegsráðherra til hamingju með starfið vil ég brýna hann til að taka þessi mál föstum tökum og ég veit að hann gerir það eins og kom fram í svari hans áðan, og setja af stað skipulegt verkefni til lengri tíma sem leitar skýringa á þessum breytingum lífríkisins. Ef viðbótarrannsókna er þörf treysti ég því að stofnunum sjávarútvegsins verði skapað svigrúm, peningalegt sem annað, til að finna sem réttust svör samkvæmt bestu þekkingu okkar tíma.