132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:49]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni góð ráð fyrir komandi landsfund.

Ég vil byrja á að spyrja hv. þingmann eftirfarandi spurningar. Í upphafi ræðu sinnar talaði hann um samfelldar árásir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á kjör eldri borgara. Var afnám eignarskattsins að mati hv. þingmanns árás á eldri borgara?

Í framhaldi af því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af breytingum á fasteignamarkaði, að hækkun á fasteignagjöldum svo gott sem jafni út þá kjarabót sem niðurfelling eignarskatts var fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu á sínum tíma. Ég spyr hv. þingmann: Hefur hann spurt félaga sína í borgarstjórnararmi Samfylkingarinnar hvort til standi að lækka fasteignaálögur, fasteignagjöld á eldri borgara í Reykjavík?

Eitt eigum við þó sameiginlegt, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að við viljum kjarabætur til handa eldri borgurum á Íslandi. Það mun koma á daginn hvað ríkisstjórnin gerir í þeim málaflokki á næstu missirum. Eitt er ég viss um, að eitthvað gott kemur út úr því innan skamms.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór inn á skattamálin. Ef hann hefur hlustað á ræður mínar og lesið skrif mín varðandi skattamál á undanförnum missirum ætti hann að vita að ég er talsmaður þess að hafa lágan flatan tekjuskatt í anda tillagna frá Verslunarráði Íslands frá síðasta ári. Yrði það ekki mikil kjarabót, spyr ég hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að hér yrði flatur tekjuskattur 15–18% (JóhS: Og enginn persónuafsláttur?) á alla þegna landsins? Það mundi muna — og ég kem inn á það í seinna andsvari á eftir — töluverðum peningum fyrir lífeyrisþega ef tekjuskatturinn yrði lækkaður sem þessu nemur.