132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:22]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Þetta er 5. mál þessa þings og fyrsta þingmálið sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytur. Með því leggjum við auðvitað af okkar hálfu áherslu á þetta viðfangsefni.

Hér er að stofni til um endurflutta tillögu að ræða frá því á útmánuðum síðasta þings en í marsmánuði síðastliðnum kom efnislega nokkurn veginn samhljóða tillaga fram, enda voru þær aðstæður sem enn blasa við í efnahagslífi okkar í aðalatriðum hinar sömu og þá nema hvað staðan hefur versnað að flestra þeirra dómi sem um hlutina fjalla og kemur það t.d. glöggt fram í mati Seðlabankans á aðstæðum nú á haustmánuðum 2005.

Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra sér sér fært að vera viðstaddur upphaf þessarar umræðu og sömuleiðis væri áhugavert þegar henni fram heldur, væntanlega á næsta fundi því að skammt lifir eftir þessa fundar, að hér væru þá t.d. viðstaddir hæstv. sjávarútvegsráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur verið að tjá sig lítillega að undanförnu um stöðu sjávarútvegsins og afkomuna þar. Forveri hans í starfi, hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, skipaði sérstaka nefnd, svokallaða hágengisnefnd til að fara ofan í saumana á rekstrarskilyrðum sjávarútvegsins og var þó gengi krónunnar þá mun lægra en það er núna, gengisvísitalan væntanlega upp undir 110 eða jafnvel yfir 110 þegar hágengisnefndin var að störfum en núna stefnir hún jafnvel niður fyrir 100. Það eru spár um að gengisvísitalan gæti jafnvel farið niður fyrir 100 á næstu vikum eða mánuðum og raungengi krónunnar þar af leiðandi orðið hærra, þ.e. krónan sterkari en nokkru sinni fyrr í sögunni með auðvitað þeim afleiðingum sem það hefur fyrir afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina.

Þær aðstæður sem eru orsök þessa tillöguflutnings eða tilefni hans segja sig auðvitað sjálfar. Þeir sem fylgjast með umræðum um efnahags- og atvinnumál komast ekki hjá því að sjá þær þungu áhyggjur sem í raun og veru flestir sem tjá sig um þessi mál, nema þá hæstv. ríkisstjórn, hafa af ástandinu. Seðlabankinn bætir þannig t.d. mjög í lýsingu sína á því hversu alvarlegar horfurnar séu og hversu mikið jafnvægisleysið í þjóðarbúskapnum sé í síðasta hefti Peningamála frá því um mánaðamótin. Þar segir í kafla um þróun og horfur í efnahags- og peningamálum, með leyfi forseta: „Ójafnvægi í þjóðarbúskapnum hefur aukist verulega frá því að Seðlabankinn gaf út þjóðhags- og verðbólguspá í byrjun júní.“ Framar í sama riti segir að ójafnvægið í þjóðarbúskapnum hafi aukist og það séu vonbrigði að þrátt fyrir verulega hækkun stýrivaxta bankans allt frá því í maí á síðastliðnu ári séu verðbólguhorfur til næstu tveggja ára enn óviðunandi, einkum þegar einnig er tekið tillit til þeirrar verðbólguhættu sem fólgin er í mögulegri lækkun gengis krónunnar.

Þetta eru nokkuð sterk orð að tala um að jafnvægisleysið eða ójafnvægið í þjóðarbúskapnum hafi aukist verulega. Það var til staðar en hefur aukist verulega frá því í júní og verðbólguhorfurnar til næstu tveggja ára eru óviðunandi. Þetta er orð Seðlabankans. Greiningardeild eins bankanna kallar ástandið ógnarjafnvægi, talar um ógnarjafnvægi í efnahagslífinu sem auðvitað er hálfgert orðskrípi og reyndar viðurkenna síðan höfundar orðalagsins aftar í textanum að í reynd sé ekki hægt að kalla þetta ástand jafnvægi.

Harkalegar aðgerðir Seðlabankans, reyndar umdeildar og nokkuð um það deilt hvaða áhrif þetta helsta stýritæki hans, vaxtaákvarðanirnar, hafi, hafa sem sagt ekki dugað og kemur engum á óvart, enda hefur Seðlabankinn margbeðið í aðstoð og núna í eitt til eitt og hálft ár lýst því yfir að peningamálaaðgerðir hans einar og sér muni ekki duga til að ná tökum á ástandinu. Seðlabankinn biður um aðstoð, um stuðning frá skynsamlegri stjórnarstefnu og auðvitað fleiri aðilum í þjóðfélaginu en hann fær hann ekki enn sem komið er a.m.k.

Helstu ástæður þessa ástands eða vanda sem við okkur blasir eru vel þekktar og tæpast hægt að deila mikið um þær. Þær eru í fyrsta lagi hinar gríðarmiklu samanþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir sem Seðlabankinn segir að nemi um einum þriðja af landsframleiðslu heils árs og koma inn í hagkerfinu á 3–4 árum. Seðlabankinn segir að ekkert annað land sem býr við sambærilegar aðstæður og beitir sömu aðferðum í efnahagsmálum, þ.e. með opið hagkerfi og frjálsa fjármagnsflutninga, glími við svona viðfangsefni. Í öðru lagi liggur fyrir að skattalækkanirnar hafa neikvæð áhrif. Þær eru olía á þann eld þenslu og viðskiptahalla sem við er að glíma. Til staðfestingar má vitna bæði í umsagnir greiningardeilda banka og Seðlabanka. Í þriðja lagi er útlánaþenslan, gríðarleg útlánaaukning banka og ástandið á fasteignamarkaði. Og í fjórða lagi er ekki nokkur minnsti vafi á því að andvaraleysi, eða ég leyfi mér að kalla sofandaháttur, ríkisstjórnarinnar og röng skilaboð sem þaðan eru send er hér valdur að líka. Þetta er nefnilega þannig að það þarf bæði að skoða, í hverju tilviki fyrir sig, þegar stóriðjustefnan á í hlut, þegar skattalækkanirnar eiga í hlut eða stefna ríkisstjórnarinnar, hver eru hin efnislegu áhrif af því sem þar er á ferðinni, hversu mikið munar um 300–400 milljarðana í stóriðjufjárfestingum inn í landið bæði vegna framkvæmdanna eystra, í Hvalfirði og víðar á 3–4 árum.

Svo þarf líka að skoða væntingaáhrifin sem þetta hefur, áhrifin á andrúmsloftið, á hinn sálræna eða huglæga þátt efnahagsmálanna sem allir vita og viðurkenna að er mjög stór. Þar er það sem ríkisstjórnin bregst auðvitað mest vegna þess að með góðæristalinu, með aðgerðaleysinu og með því að neita að horfast í augu við að um alvarlegar aðstæður sé að ræða er ríkisstjórnin að senda röng skilaboð eða óheppileg skilaboð Væri ríkisstjórnin að takast á við þetta verkefni með Seðlabankanum og gæfi út skýr skilaboð um að menn ætluðu sér að ná utan um hlutina þá væri öðru til að dreifa. Það mundi slá á væntingarnar í staðinn fyrir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar ýta meira og minna undir þær.

Það að lögfesta þessar miklu skattalækkanir langt fram í tímann, sem eru talsverðar upphæðir þegar lagt er saman, á þriðja tug milljarða sem taka á úr ríkissjóði og í umferð með þessum hætti, og þær væntingar sem því fylgja, stóriðjustefnan og það að boða áframhald á henni — jafnvel í sjálfri greinargerð fjárlagafrumvarpsins er gefið í skyn að það líti vel út með enn frekari stóriðjuframkvæmdir á næstu missirum, t.d. frekari stækkun á Grundartanga — eru ekki beint heppileg skilaboð út í ástandið eins og það er. Það sama má reyndar segja um ráðstöfun söluhagnaðar Símans sem menn hæla sér af og telja sérstaklega ábyrga, þ.e. að depónera því fé fram á árið 2007. Það er nú ekki mjög langt þangað til, 15 mánuðir, og einnig þá á að fara að setja mikla fjármuni í umferð. Og þá fara menn auðvitað að velta því fyrir sér hvort ekki sé þá best að stinga sér í gegnum þetta og láta veisluna halda áfram, halda áfram að eyða, halda áfram að taka lán og mun ekki gengið haldast hátt.

Við teljum að það sé algerlega óumflýjanlegt að grípa til víðtækra ráðstafana og út á það gengur tillaga okkar. Það sem við teljum að sé mikilvægast er: Að verðbólgan náist niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans, á því hanga m.a. forsendur kjarasamninga, að stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur því að bakgrunni liggur sú hætta að það verði verulegt kaupmáttarhrun með verðbólguskoti og erfiðleikum sem munu fylgja í kjölfarið ef mönnum tekst ekki að ná tökum á ástandinu. Að stöðugleiki haldist sem sagt á vinnumarkaði og kaupmáttur launa sé varðveittur og að sjálfbær þróun verði leiðarljós í orku- og atvinnumálum. Það þarf að tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði en þau eru ekki til staðar í dag því uppsagnir, lokanir og gjaldþrot berast okkur dögum oftar sem fréttir. Það liggur fyrir að miklir erfiðleikar ganga yfir sjávarútveginn, fiskvinnsluna, ferðaþjónustuna, útflutnings- og samkeppnisiðnaðinn og hann, þ.e. sá hluti hans sem er hreyfanlegur, er að greiða atkvæði um þetta ástand með fótunum og fara úr landi. Það liggur þannig alveg fyrir að störf eru að tapast hundruðum saman ef ekki þúsundum á móti því sem stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar skilar inn í staðinn. Þetta eru hin illræmdu ruðningsáhrif. Þau eru að birtast okkur í reynd, kristallstært fyrir framan augun á okkur. Á móti þeim störfum sem stóriðjan kemur með sem eru fá fyrir hvern milljarð í fjárfestingum hverfa núna hundruðum saman störf úr sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Eitt af dagblöðunum taldi að um 500 störf væru núna horfin út úr sjávarútveginum á níu mánuðum til einu ári og var þá eingöngu byggt á því að leggja saman fréttir í fjölmiðlum síðastliðna mánuði um uppsagnir.

Það þarf auðvitað að ná tökum á viðskiptahallanum og stöðva þá geigvænlegu skuldasöfnun þjóðarbúsins sem er í gangi. Það þarf að viðhalda stöðugleika í fjármálakerfinu og það er jafnvel full ástæða til að fara yfir hvort hætta sé á að hér gætu gerst sambærilegir hlutir í fjármálakerfinu og bankakerfinu og gerðust á hinum Norðurlöndunum í kringum 1990. Og það verður ósköp einfaldlega að ná jafnvægi í þjóðarbúskap okkar almennt á nýjan leik. Það hefur glatast. Og í þessu skyni leggjum við til eftirfarandi aðgerðir:

1. Að gefin verði formleg yfirlýsing um að ekki verði af hálfu opinberra aðila stuðlað að né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekari stóriðju en þegar er í byggingu, a.m.k. til ársloka 2012. Áhersla verði þess í stað lögð á fjölbreytta, smáa og meðalstóra iðnaðarkosti af viðráðanlegri stærð fyrir hagkerfið og aðstæður viðkomandi byggðarlaga.

2. Að þeim tilmælum verði beint til Fjármálaeftirlitsins að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu svo sem hvað varðar áhrifin af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs. Hætturnar á hvoru tveggja blasa við, t.d. að krónan geti hrunið eða það eitt að erlendir aðilar hafa nú gefið út skuldabréf í krónum og borgað fyrir með gjaldeyri svo nemur líklega á milli 70–80 millj. kr. í dag (Gripið fram í.) eða 90 millj., maður hefur varla við að fylgjast með því hvernig talan hækkar. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að fjármagn á skammtímakjörum er komið inn en getur horfið aftur jafnsnöggt og það kemur inn því að þessi bréf eru flest til nokkurn veginn jafnlangs tíma, eins og hálfs, tveggja ára eða svo. Með öðrum orðum eftir eitt og hálft til tvö ár geta þessir fjármunir, þessi gjaldeyrir sópast til baka út úr hagkerfinu ef aðstæður hafa þá breyst þannig að menn veðja ekki á að endurnýja bréfin í krónum. Þetta eykur gengisáhættuna og þetta getur gert það að verkum að útslagið verði miklu meira en ella og þá þarf bankakerfið og fjármálakerfið að takast á við það. Það sama gildir um fasteignaverðið sem hefur bólgnað upp langt umfram raunkostnað eða eðlilegar aðstæður eða jafnvægisaðstæður. Það viðurkenna allir, og slíkar bólur hafa oft misst loftið hratt eins og við þekkjum og það átti sinn þátt í bankakreppunni á hinum Norðurlöndunum um 1990.

Sem sagt, Fjármálaeftirlitið hugi að áhættumati í bankakerfinu og markmiðið verði að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapi ekki hættu fyrir efnahagslífið. Í þessu sambandi væri skynsamlegt að fara yfir eiginfjárlágmörk og áhættugrunn fjármálastofnana eins og Fjármálaeftirlitið hefur auðvitað heimildir til að gera.

Í þriðja lagi leggjum við til að tilmælum verði beint til Seðlabanka Íslands um að íhuga t.d. mögulega beitingu bindiskyldu eða aðrar aðgerðir til að styðja við sameiginlegar aðgerðir stjórnvalda og bankans til að ná tökum á ástandinu eins og Seðlabankinn hefur fullar heimildir til að gera samanber 2. mgr. 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Við leggjum til að aðferðir við mælingu verðlags verði yfirfarnar og athugað sérstaklega hvernig vænlegast sé að meta húsnæðiskostnað í vísitölu en það er ljóst að hækkun fasteignaverðs hefur átt verulegan þátt í hækkun vísitölu neysluverðs að undanförnu.

Við leggjum til, til þess að tryggja aðhald í ríkisfjármálum og slá á þenslu, að stjórnin leggi fyrir Alþingi tillögur um að falla frá eða fresta eftir atvikum a.m.k. hluta þeirra skattalækkana sem lögfestar voru fram í tímann í desember 2004. Í staðinn komi aðgerðir til að bæta stöðu tekjulægstu hópa samfélagsins og barnafjölskyldna.

Að síðustu leggjum við til að leitað verði eftir víðtæku samstarfi aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtaka, samtaka bænda, neytenda, öryrkja, aldraðra og annarra þeirra sem eiga mikið í húfi að það takist að endurheimta þann stöðugleika sem nú hefur glatast og kostaði blóð, svita, tár og miklar fórnir að ná með þjóðarsáttinni árið 1990.

Ég legg svo til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og efnahags- og viðskiptanefndar.