132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:23]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Framsóknarflokknum er illt í bakinu, sagði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, vegna þess að sjálfstæðismenn eru svo vondir við þá í stjórnarsamstarfinu. Ég segi við Framsóknarflokkinn: Verið þá ekki að burðast með þessi óhæfuverk á bakinu.

Við höfum vakið athygli á því að það er algerlega fráleitt að skerða bifreiðastyrk til hreyfihamlaðra um 720 milljónir. Þingið er sammála okkur um það, það er ekki þingmeirihluti fyrir þeirri ákvörðun og verður ekki nema ýtrasta flokksaga verði beitt. Það er heldur ekki þjóðarvilji. Það er lágt lagst hjá nýjum hæstv. fjármálaráðherra að láta hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, sitja einan uppi með svartapétur, því að það er eins og hv. þingmenn Jónína Bjartmarz og Siv Friðleifsdóttir hafa bent á, það er ríkisstjórnin sem ákvað þessa forgangsröðun, það er ríkisstjórnin sem ákvað að létta sköttum af hátekjumönnum í landinu og gerir kröfu sameiginlega á heilbrigðisráðuneytið um að spara fyrir þeim skattalækkunum. Og hvar sparar heilbrigðisráðuneytið? Ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir það, en það á auðvitað að spara í sínum rekstri og margvíslegum útgjöldum en ekki að taka hagræðingarkröfuna alla út á hreyfihömluðum og í lyfjakostnaði sjúklinga. Auðvitað er það sjálfsagt að ráðuneytið reyni sjálft í rekstri sínum og stofnana sinna að hagræða. En ljóst er, virðulegur forseti, af þessari umræðu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga stefnu um bensínstyrki til hreyfihamlaðra. Þó að landsfundur hans hafi samþykkt það samhljóða um helgina, hygg ég, að hækka eigi bensínstyrki til hreyfihamlaðra, þá kemur nýr fjármálaráðherra hér aftur og aftur í ræðustólinn og hefur enga stefnu í málinu, getur engu lýst yfir heldur snýst bara fram og til baka að því er virðist algerlega ráðalaus um það hvernig hann eigi að svara fyrir það fjárlagafrumvarp sem hann hefur þó sjálfur lagt fram í þinginu og í nafni allrar ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) en ekki bara Jóns Kristjánssonar.