132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Nýskipan í starfs- og fjöltækninámi.

15. mál
[19:18]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Okkur vantar meira af menntuðu fólki úr málmiðnaði. Þessi orð lét Jón Sigurðsson, sem er forstjóri Össurar nafna míns, einhvers framsæknasta hátæknifyrirtækis sem við Íslendingar eigum, falla á ráðstefnu sem Samfylkingin hélt fyrir einu og hálfu ári. Hann lagði mikla áherslu á að það sem helst hefti framgang og vöxt fyrirtækisins hér á landi væri skortur á fólki sem hefði verknám að baki og sér í lagi fólki sem hefði byggt ofan á það verknám aðra og fjölþættari menntun. Hann sagði: Þessi blanda er það sem okkur skortir í dag og þessa blöndu er erfitt að fá úr íslenska skólakerfinu.

Þetta, frú forseti, er ástæðan fyrir því að við þingmenn Samfylkingarinnar, með hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson í broddi fylkingar, leggjum þetta mál fram. Hér er verið að reyna, og ekki í fyrsta skipti, að sníða af ýmsa vankanta, og ég vil segja alvarlega ágalla, sem er að finna á íslenska menntakerfinu eftir nánast samfellda stjórn Sjálfstæðisflokksins á þeim í yfir tvo áratugi.

Þessi þingsályktunartillaga er um nýskipan í starfs- og fjöltækninámi og með henni leggur Samfylkingin enn og aftur þunga áherslu á að settar verði upp styttri námsbrautir í verknámi. Við teljum að það sé eitt af því sem skorti mjög alvarlega í menntakerfinu. Við teljum að langvarandi stjórn Sjálfstæðisflokksins á þessum málaflokki hafi leitt til þess að ákveðin gliðnun hefur orðið á milli bóknáms og verknáms. Uppbygging menntakerfisins á Íslandi hefur að þessu leyti hvorki fylgt þörfum atvinnulífsins né þeirri þróun sem við sjáum í nágrannalöndunum og þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Ef Íslendingar ætla sér að reyna að virkja þá auðlind sem býr í mannshuganum og virkja unga fólkið til þess að skapa atvinnulíf í framtíðinni sem verður ekki bara samkeppnishæft við heiminn heldur með ákveðið forskot — sem á að vera hægt sökum sérstakra aðstæðna hér í ýmsum greinum — þá verðum við að breyta uppbyggingu menntakerfisins. Við höfum þráfaldlega reynt að benda hæstv. menntamálaráðherra á þetta en hún hefur skellt skollaeyrum við og það er eins og það sé ómögulegt að opna augu Sjálfstæðisflokksins fyrir því hve nauðsynlegt þetta er.

Það vantar ekki að það eru margir sem taka undir með okkur í þessum efnum. Ég nefndi hér áðan forstjóra framsækins hátæknifyrirtækis og það hafa fleiri í hópi þeirra sem stýra hátæknifyrirtækjum haft orð á þessu. Þessar áherslur hafa þráfaldlega komið fram hjá samtökum í iðnaði. Þessar áherslur hafa líka þráfaldlega komið fram hjá skólamönnum sjálfum.

Mig langar því, frú forseti, að vekja eftirtekt á því að við í Samfylkingunni höfum á þessu hausti lagt mikið upp úr því að stjórnvöld horfi til framtíðar og stígi skref í áttina að því að færa framhaldsskólann yfir til sveitarfélaganna. Við höfum reynslu af því að menntakerfið hefur batnað verulega, þ.e. þeir hlutar þess sem hafa verið lagðir undir sveitarfélögin, og er ég þá að tala um færslu grunnskólans á síðustu árum. Sem foreldri og sem alþingismaður sem hefur áhuga á menntamálum segi ég að ákveðin kaflaskipti hafi orðið á síðustu árum einmitt hvað gæði grunnskólans varðar. Ég tel að sú skoðun Samfylkingarinnar að færa eigi framhaldsskólann yfir til sveitarfélaganna sé góð leið til þess að bæta úr þeim ágöllum sem við erum hér að ræða.

Því segi ég það? Vegna þess að við höfum árum saman, Samfylkingin, aðrir stjórnmálaflokkar, samtök í iðnaði og skólamenn, verið að leggja áherslu á þetta og það gengur ekki. Hugsanlega verður það ekki fyrr en Samfylkingin er komin í ríkisstjórn og farin að stýra menntamálunum sem tekst að koma þessum málum í höfn, og þá e.t.v. með sameiginlegu átaki ríkisvaldsins og sveitarfélaganna.

Hv. þingmenn hafa rætt það af töluverðum þunga að brottfall úr framhaldsskóla sé meira á Íslandi en annars staðar. Það er töluvert meira en t.d. á Norðurlöndunum, sem við eigum að bera okkur saman við, ekki bara vegna þess að það eru grannlönd og frændlönd heldur vegna þess að þar er ástandið eins og það gerist best. Við eigum einungis að bera okkur saman við ástandið þar sem það gerist best. Þar hefur orðið öðruvísi uppbygging á a.m.k. síðasta áratug og þar er gríðarlega mikið lagt upp úr möguleikum ungs fólks til þess að verða sér úti um verkmenntun og jafnframt að geta byggt ofan á hana það sem við köllum stundum bóknám. Mér er að vísu meinilla við að draga skörp skil, eins og menn gera þegar þeir tala annars vegar um bóknám og hins vegar um verknám. Menn eiga ekki að gera það lengur, hvort tveggja er háð hinu.

Við teljum að það sé nauðsynlegt að byggja undir þennan hluta menntakerfisins, m.a. til þess að svara þörfum nemendanna sjálfra, svara þörfum þeirra kynslóða sem eru að ganga gegnum skólastigin og finna ekki alveg réttan tón, finna ekki alveg þá blöndu sem hæfir þeim og sem gerir þeim kleift að verða sér úti um þá menntun og reynslu sem þau vilja og telja sig þurfa til þess að hasla sér völl í atvinnulífinu þegar að því kemur.

Þessi tillaga byggir líka undir annan mikilvægan þátt í málflutningi okkar varðandi menntakerfið og það er nýtt tækifæri, eins og hv. þm. Anna K Gunnarsdóttir nefndi hér áðan og hugsanlega fleiri. Margir í samfélaginu sem eru komnir til vits og ára og farnir að taka þátt í atvinnulífinu áttu þess aldrei kost, af ástæðum sem eru margar og ég ætla ekki að rekja hér, að verða sér úti um annað en hugsanlega bara grunnskólapróf, jafnvel minna en grunnskólapróf. Það eru töluvert margir, eins og við höfum nefnt, sem detta út úr skólakerfinu og koma án þeirrar þjálfunar sem það veitir þeim út í atvinnulífið. Þetta fólk vill oft og tíðum, þegar það hefur fótað sig á áhugaverðu sviði í atvinnulífinu, verða sér úti um aukna þjálfun og færni til þess að geta náð lengra, fengið betri laun og oft betri tækifæri til þess að auka gæði lífs síns. Það hefur nú verið handleggur fyrir þetta fólk að komast aftur í nám. Við höfum nú lagt fram, þingmenn Samfylkingarinnar, sérstakar tillögur um það, en í þessari þingsályktunartillögu er einmitt verið að leggja til að fólk sem hefur náð ákveðnum aldri og hefur tiltekna menntun að baki í verknámi eigi kost á því að bæta bóklegri menntun ofan á það til þess að geta notað það sem eins konar stökkbretti til hærra náms í tækniskólum, í háskólum. Það er þess vegna sem fjöltækninámið hefur hér sérstakt vægi.