132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

22. mál
[20:16]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig nú ekki alveg á umræðunni um fjárhagslegan aðskilnað í þessu tilfelli. Ég held að menn séu bara að tala um hvort verið er að borga úr einu eða tveimur heftum. Þetta er allt fært eðlilega samkvæmt bókhaldslögum og menn geta séð niðurstöðu á rekstri vinnslunnar alveg sér í öllum ársreikningum og þetta er alls staðar tekið fram. Ég átta mig því ekki alveg á þessu.

Ég spurði hv. þingmann hvað gerðist hér hvað varðar þau fyrirtæki sem eru í loðnu ef markaðsöflin eiga að ráða. Ef menn eiga að bjóða í hver hjá öðrum og nóg er af loðnu, hvernig telur hann þá að verðlagsþróun yrði? Ég ítreka því að flestir þeirra sem ég hef talað við, og ég hef rætt við nokkra menn í stjórnarandstöðunni sem búa nú í sjávarbyggðum, eru sammála því að það er mikil hætta á að fiskvinnsla legðist af ef þetta yrði að veruleika.