132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það fór sem mig grunaði að hæstv. ráðherra gæti litlu um þetta svarað, hvernig þetta ætti að ganga upp í framtíðinni, og minntist á þetta með alþjónustukvöðina. Alþjónustukvöðin er bara ákveðin kvöð sem núna stendur en hún fylgir ekkert þróuninni.

Ég leyfi mér að ítreka spurningu til hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið miklu skynsamlegra, úr því að út í þetta er komið, að verkefnið hefði verið falið Vegagerðinni og fjármagn, sem á að ráðstafa í þetta, verið sett á fjárlög samkvæmt fjarskiptaáætlun? Hefði það ekki verið skynsamlegra en að búa til nýtt apparat, nýjan sjóð, nýja sjóðsstjórn, nýtt apparat til þess að gera útboð og meta þessar kvaðir og meta hvar á að koma inn? Fjarskiptastofnun er eingöngu eftirlitsaðili en ekki framkvæmdaraðili á nokkurn hátt. Ég spyr því: Hver á þá að framkvæma þá hluti sem ætlunin er að framkvæma á grundvelli þessarar áætlunar þar sem sjóðurinn kemur inn?

Það er líka forvitnilegt að vita hvaða hugmyndir ráðherrann hefur um reksturinn, áframhaldandi rekstur á hinum óarðbæru einingum sem ráðherrann velur að kalla svo, þar sem fjarskiptafyrirtækið telur sig ekki fá fullnægjandi arð. Hér er fyrst og fremst verið að hugsa alfarið um stofnkostnaðinn, eða er það ekki rétt skilið hjá mér, frú forseti? Hvernig á þá líka að hugsa um reksturinn sem hlýtur þá að vera jafnóarðbær?

Því miður, frú forseti, mér sýnist það sem hér er lagt fram vera mjög vanhugsað.