132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:41]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um frumvarp til laga um fjarskiptasjóð sem ég mælti fyrir og er til meðferðar í þinginu.

Það er kannski aðeins ástæða til að rifja upp nokkur atriði sem tengjast þessu í tilefni þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram. Í fyrsta lagi vil ég segja að í aðdraganda þess að Síminn var seldur og í tengslum við umræður um heimild til sölu Símans var alla tíð mjög skýrt af hálfu beggja stjórnarflokkanna að við legðum mjög ríka áherslu á framfarir á sviði fjarskiptanna og við legðum ríka áherslu á að tryggja eðlilega samkeppni á þessu sviði og við legðum ríka áherslu á að í hinu nýja umhverfi, þar sem við gerum ráð fyrir samkeppnismarkaði á sviði fjarskipta, væri þannig um hnútana búið að hagsmunir hinna dreifðu byggða yrðu ekki fyrir borð bornir. Þetta væri algert grundvallaratriði og ég hef flutt hverja ræðuna á fætur annarri þar sem ég hef fjallað um þetta mikilvæga atriði.

Eitt af því sem ég nefndi í umræðunni var að ég teldi að það að selja grunnnet fjarskiptaþjónustunnar sem væri í eign Símans með, væri partur af því að tryggja til frambúðar eðlilega samkeppni á þessum markaði og tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar vegna þess að það regluverk sem við höfum sett upp á grundvelli laga um aðgang að netum og aðgang að heimtaug o.s.frv. eru lykilatriði gagnvart markaðsráðandi fyrirtæki til þess m.a. að tryggja hagsmuni hinna dreifðu byggða. Ég tel að stjórnarflokkarnir hafi verið fullkomlega samkvæmir sjálfum sér í allri þessari vegferð og allri þessari umræðu þegar við tölum um að við viljum með öllum tiltækum ráðum tryggja hagsmuni á sviði fjarskipta fyrir íbúa um landið allt. Þess vegna er þetta frumvarp flutt, frumvarp til laga um fjarskiptasjóð, sjóður sem á að tryggja slíka hagsmuni.

Við höfum mikla reynslu af þessari framkvæmd sem við erum að leggja upp með á sviði fjarskiptanna. Við erum að leggja upp með fjarskiptasjóð sem er ætlað að bjóða út — og Póst- og fjarskiptastofnun á að sjá um þá framkvæmd — þessa þjónustu. Ég tel að hv. þm. Jón Bjarnason ætti að hlusta vandlega núna vegna þess að hér er heilmikið lykilatriði á ferðinni. Hann hefur nefnilega allt á hornum sér og virðist vera á móti þessari fyrirhuguðu stórkostlegu uppbyggingu í þjónustu um landið og það verður rifjað upp þegar það passar á réttum stöðum til þess að upplýsa fólk um framgöngu hv. þingmanna Vinstri grænna.

Við höfum mikla reynslu í þessari aðferðafræði. Hver er hún? Jú, að sjálfsögðu höfum við mikla reynslu í uppbyggingu samgöngukerfisins, veganna, hafnanna og flugvallanna þar sem við bjóðum út framkvæmdir og þjónustu, t.d. rekstur ferjuþjónustunnar. Við höfum boðið það allt saman út með miklum og góðum árangri. Það hefur sýnt sig. Sem dæmi þar um er að við höfum boðið út ferjusiglingarnar til Vestmannaeyja og við höfum náð þeim árangri að við höfum fjölgað ferðum um 72% frá því að ferjusiglingarnar voru boðnar út en kostnaðurinn er mjög í hófi. Við höfum boðið út flug til jaðarbyggða og við erum að bjóða núna út sérleyfin, fólksflutninga á landi, þannig að við höfum mikla reynslu á því að fara þessa leið, útboðsleið, til að tryggja almannaþjónustu á sviði samgangna. Ég tel því að sú leið sem við erum að velja hér sé hárrétt og við höfum aflað okkur mikillar reynslu við að byggja þetta upp.

Hv. þm. Kristján L. Möller sagði að við hefðum átt að gera þetta allt saman fyrir löngu sem við erum að leggja á ráðin um í fjarskiptaáætluninni. Hvernig væri það ef við hefðum nú ákveðið fyrir löngu hvernig þetta ætti allt saman að vera í fjarskiptunum? Hv. þm. Jónína Bjartmarz kom réttilega inn á það hér að fyrir nokkrum árum settum við í lög að ISDN-þjónustan væri partur af alþjónustunni vegna þess að þá var hún sú tækni þá sem allir sóttust í. Allir voru að sækjast eftir því að fá ISDN-tengingarnar heim til sín og ég flutti frumvarp til laga um breytingar á fjarskiptalögunum sem skyldaði markaðsráðandi fyrirtæki til að veita þessa þjónustu. Síðan líður tíminn og tækninni fleygir fram. Við höfum varla haft við að taka við þessum miklu breytingum á sviði tækni í fjarskiptum þannig að það sem við hefðum átt að vera fyrir löngu búnir að gera í gær er kannski orðið úrelt á morgun. Við skulum gæta okkar á því að (JBjarn: Við vorum ...) ætla okkur ekki um of í þessu. En aðalatriðið er að með fjarskiptasjóði erum við að leggja á ráðin um að hann standi fyrir uppbyggingu þjónustu sem dugar okkur í framtíðinni.

Hv. þm. Jón Bjarnason sagði að hér væri verið að stoppa í verstu götin í uppbyggingu kerfisins. Ég tel að það sé rangt. Með þeim áformum sem fjarskiptaáætlunin gerir ráð fyrir erum við að brjóta ísinn um leið og við fylgjum þróuninni og nýtum okkur tæknina. Ég minni á að nýlega er búið að bjóða tíðnir vegna stafræns útvarps og sjónvarps og þar kepptust aðilar um að fá úthlutað tíðnum á því sviði. Hér er satt að segja allt á fljúgandi ferð í því að nýta tæknina og fylgja henni eftir.

Ég gat þess í andsvari við ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar vegna þess að hann kvartaði undan því að þetta færi ekki í gegnum fjárlagaafgreiðslu, að í fjáraukalögunum fyrir árið í ár er sjálfsögðu fjallað um þetta. Heill milljarður er settur í fjáraukalögin á þessu ári til þess að geta boðið út strax og búið er að samþykkja þessi lög. Við höfum þá milljarð króna til að bjóða út uppbyggingu GSM-símkerfisins á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Ég vil segja að gefnu tilefni að ekkert annað stendur til en að fylgja fjarskiptaáætluninni og við gerum ráð fyrir því að bjóða út farsímakerfin eins og ég hef margsinnis getið um.

Spurt var hvaða arðsemiskröfur yrðu gerðar þarna. Það verður að sjálfsögðu stjórnar sjóðsins og verkefnastjórnarinnar að fara yfir það. En kröfurnar sem við gerum með þessu frumvarpi og kröfurnar sem við gerðum í fjarskiptaáætluninni voru þær að þessi þjónusta yrði veitt á þjóðvegum landsins, þ.e. farsímaþjónustan, og á fjölförnum ferðamannastöðum og að veitt yrði þjónusta í gegnum gervihnetti, þ.e. útvarps- og sjónvarpssendingar, og að við legðum ríka áherslu á að háhraðatengingar byggðust upp á næstu missirum. En auðvitað verðum við að fara leiðir — ég ætla ekki að fara nánar út í það — sem tryggja okkur það að sjálfsögðu að fjarskiptafyrirtækin keppist um að veita þessa þjónustu án stuðnings. Þarna er mjög vandmeðfarið og vandratað meðalhófið og það verður mjög vandasamt verkefni að finna út hvar þau svæði eru sem á að styrkja úr þessum sjóði uppbyggingu t.d. farsímakerfisins. Ég tek því bara undir að það er ekkert gefið fyrir fram hvar þessi svæði verða eða hvar þau eiga að verða sem ríkissjóður í gegnum fjarskiptasjóðinn á að veita stuðning til uppbyggingar. En ég hef mikla trú á því að það ágæta fólk sem mun vinna að þessu, m.a. á vettvangi Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem eru okkar öflugustu sérfræðingar á þessum sviðum, muni leysa það verkefni. Ég tek undir það að farsímakerfin eru öryggiskerfi. Ég hef marglýst því yfir hér og við þurfum að vinna þetta í því ljósi.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson vakti athygli á því að hér væri ekki tilgreint hversu margir varamenn ættu að vera skipaðir í stjórnina. Ég tel sýnt að þeir ættu að geta verið jafnmargir og aðalmenn í stjórninni þó að það sé út af fyrir sig ekki alls staðar meginregla í stjórnum að varamenn séu jafnmargir. En samkvæmt frumvarpinu er það í valdi ráðherra hversu marga varamenn hann skipar í stjórnina.

Vegna þeirra athugasemda sem hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði við þann texta sem hér er í almennum athugasemdum um að greiðslur úr sjóðnum eigi að vera í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þá er ekki átt þar við að tvær fjarskiptaáætlanir eigi að vera í gangi heldur verðum við að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því að greiðslur úr þessum sjóði séu í samræmi við fjármálastjórn ríkisins innan hvers fjárlagaárs þannig að þar sé öllu til skila haldið, þar sé góð reiða á fjármálum og þeir hlutir allir í góðu fari. Annað er ekki hugsað þarna. Það er ekki svo að það eigi að vera sérstök fjarskiptaáætlun ríkisstjórnarinnar sem er önnur en fjarskiptaáætlun sú sem Alþingi hefur fjallað um og samþykkt.

Virðulegur forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að hafa þessi orð fleiri. Ég vil bara þakka fyrir ágætar undirtektir. Í grunninn heyrist mér að þeir ágætu þingmenn sem hér hafa talað séu sammála í raun. Ég undirstrika það sem kom fram hjá hv. þingmönnum Jónínu Bjartmarz og Siv Friðleifsdóttur að stjórnarflokkarnir hafa markað mjög skýra stefnu um að við viljum tryggja, um leið og við höfum selt með þvílíkum ágætum Símann, þessa þjónustu á sviði fjarskiptanna sem best um allt land þannig að við getum nýtt okkur til atvinnuuppbyggingar kosti fjarskiptakerfanna og getum nýtt okkur þá t.d. til þess að auka aðgengi almennings að menntun um landið allt og skapað þannig betri búsetuskilyrði í landinu.