132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Hlutur kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[18:01]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð um þá merkilegu tillögu sem hér er flutt um leið og ég lýsi fullum stuðningi við hana. Það er miður að það þurfi að flytja slíka tillögu á Alþingi, að grípa þurfi til svona aðgerða, en eins og við sjáum hér og sýnt er í töflu er hlutur kvenna í sveitarstjórnum allt of lítill. Það vantar of mikið upp á til þess að fullt jafnræði sé meðal karla og kvenna í sveitarstjórnum.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort það geti verið að í litlu sveitarfélögunum hindri launin bæði konur og karla í því að koma til starfa, ég held að þetta sé mjög illa launað starf í litlu sveitarfélögunum. Ég sat í bæjarstjórn í mínu sveitarfélagi í tólf ár og það var dýrasta hobbýið sem fjölskyldan stundaði, að ég væri að vasast í bæjarstjórnarpólitíkinni.

Í stóru sveitarfélögunum getur það verið þannig að harka í prófkjörum og fjárútlát í kringum þau ýti fólki frá og þá kannski sérstaklega konum. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að þær hindranir skuli vera til staðar sem gera það að verkum að konur gefa ekki kost á sér. Ég tel fulla ástæðu til að samþykkja þessa tillögu og að félagsmálaráðuneytið beiti sér fyrir sérstökum aðgerðum, kannski námskeiðahaldi eða annarri hvatningu, til þess að fleiri konur gefi kost á sér til setu í sveitarstjórnum.

Ég vil, virðulegi forseti, í þessu sambandi nefna átak sem ég hef oft tekið sem dæmi og var alveg sérstaklega ánægjulegt, en það var átakið Auður í krafti kvenna. Nokkur fyrirtæki hér á landi tóku sig til ásamt fleirum og stofnuðu til þessa námskeiðs og það er alveg stórkostlegt að hugsa til allra þeirra krafta sem þar voru virkjaðir og allra þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem voru stofnuð í framhaldinu. Þetta sýnir hvað hægt er að gera. Þetta mætti flytja yfir í pólitíkina, Auður í krafti kvenna – til að bjóða sig fram til sveitarstjórna eða hvað sem það er. Eitthvað þarf til, einhvern stuðning, eitthvað til að ýta á og það er hið besta mál. Ég held að margt af þessu mundi kannski gera það að verkum líka, ég tala nú sérstaklega um litlu sveitarfélögin sem ég þekki best til, að fleiri gæfu kost á sér.

Ég óttast, virðulegi forseti, að í komandi sveitarstjórnarkosningum verði töluverður skortur á frambjóðendum til sveitarstjórnarmála vegna þess hve tekjustofnar sveitarfélaga eru orðnir lélegir. Sveitarstjórnarmenn segja sumir: Við gerum ekkert lengur annað en leiðinlega hluti, skera niður eða skerða þjónustu, sem við erum svo hundskömmuð fyrir vegna þess að það er svo lítið til af peningum til að gera eitthvað ánægjulegt.

Ég vildi aðeins segja að það er full þörf á þessu átaki, ég trúi ekki öðru. Ég hefði viljað getað sagt að við ættum að vera hér á fundi á Alþingi á mánudaginn kemur, 24. október, klukkan 14.08, við karlmennirnir, og mynda hér þingmeirihluta til að samþykkja þessa tillögu og koma þessu strax í verk. En hlutirnir ganga ekki svo hratt fyrir sig á hinu háa Alþingi þannig að við verðum bara að óska þess að málið komist til nefndar sem fyrst og að þverpólitísk samstaða verði um að samþykkja þessa tillögu, þannig að sveitarstjórnarkosningarnar verði nú ekki liðnar áður en þetta kemur til lokaafgreiðslu. Þær verða 27. maí. Ég veit að við jafnréttissinnar í Samfylkingunni, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem hér stendur, ásamt öðrum góðum mönnum, munum leggja okkar af mörkum svo að þessi tillaga nái fram að ganga. Það þarf að gera átak í því að fjölga konum í sveitarstjórnum. Við höfum mikla þörf fyrir það, þann auð sem er í konum til stjórnunarstarfa þarf að virkja inn í sveitarstjórnir.