132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[16:42]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar sem meti kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálslynda flokknum og Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingar.

Virðulegi forseti. Texti þingsályktunartillögunnar er þessi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd sem meti kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Í nefndinni verði fulltrúar frá hverjum þingflokki á Alþingi, Háskóla Íslands, sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri og sjávarútvegsráðherra og skipi ráðherra jafnframt formann nefndarinnar. Nefndin skili skýrslu og ráðherra kynni Alþingi niðurstöður hennar eigi síðar en 10. desember 2006.“

Virðulegi forseti. Færeyska fiskveiðistjórnarkerfið hefur verið mikið til umræðu í þjóðfélagi okkar undanfarin ár. Frændur okkar og vinir í Færeyjum hafa kosið að ýmsu leyti að fara aðrar leiðir í fiskveiðistjórn en aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf. Árangur þeirra og reynsla hefur að mörgu leyti verið athyglisverð þó reyndar sé deilt um bæði meinta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Þó vekur athygli að svo virðist sem nokkuð almenn sátt ríki um fiskveiðistjórnina í Færeyjum. Fiskstofnar botnfisks þar virðast einnig hafa spjarað sig þokkalega almennt séð undir þeirri veiðistýringu sem er viðhöfð í kringum eyjaklasann.

En þó fiskveiðistjórn Færeyinga hafi iðulega vakið umræður hér á landi hefur aldrei farið fram ítarleg úttekt á þessu kerfi á Íslandi. Mjög fátt liggur fyrir af íslenskum heimildum um það þrátt fyrir að reynsla Færeyinga sé merkileg. Samantekt á fiskveiðistefnu Færeyinga yrði án efa þarft innlegg í umræðuna um fiskveiðistjórn hér á landi sem virðist ætla að verða nánast sígild umræða. Þessi samantekt gæti leitt til þess að Íslendingar dragi gagnlegan lærdóm af henni sem mætti nota við umbætur í fiskveiðistjórn hér og er kannski ekki vanþörf á að margra mati.

Við sem flytjum þingsályktunartillöguna mælumst ekki til að neinir fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi hér á landi eigi sæti í nefndinni. Við teljum að nauðsynlegt sé eftir megni að reyna að nálgast þetta viðfangsefni á hlutlausan hátt. Sú nefnd sem yrði skipuð mundi þá kalla eftir áliti þeirra aðila að sjálfsögðu. Kalla eftir áliti hagsmunaaðila, fá þá á fund og heyra skoðanir þeirra á þessu.

Eins og ég sagði áðan í upphafi yrðu í nefndinni fulltrúar frá hverjum þingflokki á Alþingi, fulltrúi frá Háskóla Íslands, sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri, sjávarútvegsráðherra mundi skipa einn fulltrúa og ráðherrann mundi líka skipa formann nefndarinnar.

Okkur þykir eðlilegt að nefndin leggi m.a. mat sitt á tengsl fiskveiðiráðgjafar við heimilaðan afla, brottkast, þjóðhagslegan ávinning, takmörkun afkastagetu fiskveiðiflotans, tengsl landvinnslu og útgerðar, launamál sjómanna, kjör þeirra, verndun veiðistofna, takmörkun veiðisvæða, takmörkun veiðiskipa, stærð þeirra og búnað, markaðsmál, nýliðun í útgerð, endurnýjun veiðiskipa og fleiri skyld atriði og þessi atriði yrðu síðan borin saman við fiskveiðistjórn okkar Íslendinga.

Ég hygg, virðulegi forseti, að ef þetta yrði gert skipulega og á hlutlausan hátt gætum við séð býsna margt athyglisvert. Ég hef sjálfur fylgst nokkuð grannt með reynslu Færeyinga í þó nokkur ár og hitti Færeyinga oft á hverju ári, m.a. í gegnum störf mín sem þingmaður og hef kynnt mér kerfi þeirra þó nokkuð vel. Ég tel mig fyllilega geta skrifað upp á það að þeir eru að gera hluti sem eru að mörgu leyti mjög athyglisverðir og við Íslendingar hefðum fyrir löngu átt að gera miklu meira af því að fylgjast grannt með þeim lausnum sem þeir hafa kosið að taka upp í fiskveiðistjórn sinni.

Ég ætla svo sem ekkert að fara út í það í smáatriðum að lýsa því fyrirkomulagi hér og nú. Þó að lítið sé til af gögnum um það á íslensku hvernig Færeyingar hafa farið að þessu þá er þó hægt að nálgast lýsingar á því til að mynda á vefsvæði Frjálslynda flokksins. Við höfum notað fiskveiðistefnu Færeyinga sem eins konar viðmið í tillögum okkar um það hvernig megi betrumbæta íslenska fiskveiðistjórn og vonandi ná meiri sátt um þau mál, svo að talað sé um sátt, því að ég sé að hér kemur fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar í salinn.

Nóg um það, virðulegi forseti. Við sem flytjum þessa þingsályktunartillögu leggjum til að störf nefndarinnar verði launuð af Verkefnasjóði sjávarútvegsins og að hún skili niðurstöðum sínum í skýrsluformi til sjávarútvegsráðherra sem síðan kynni hana fyrir Alþingi. Eins og ég sagði í upphafi máls míns verði þetta gert ekki síðar en 10. des. 2006. Þá fengjum við tækifæri til að taka afstöðu til efnis skýrslunnar og ræða hana í þaula á Alþingi. Sjávarútvegsnefnd Alþingis gæti hugsanlega líka tekið hana til umfjöllunar sem og ýmsir fagaðilar, hagsmunaaðilar í íslenskum sjávarútvegi og þar fram með götunum. Það er nú einu sinni svo, þó að margir haldi að svo sé ekki, þá er kvótakerfið sem við búum við í dag ekki annað en mannanna verk. Og mannanna verkum er hægt að breyta. Það gildir jafnt um kvótakerfið og annað. Það er alveg hægt að bakka út úr þessu kvótakerfi sem við Íslendingar höfum komið okkur í með ýmsum hætti. Það er líka hægt að lina tökin, ef svo má segja, og það er hægt að breyta ýmsu hér í fiskveiðistjórn, til að mynda með þeim hætti að við förum kannski að fá þá meiri afrakstur m.a. úr verðmætasta fiskstofni okkar, sem er þorskstofninn.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta nú. Ég geri ráð fyrir að á vetri komanda muni gefast ótal tækifæri til að ræða þessa hluti, en í lok máls míns geri ég það að tillögu að eftir umræður verði málinu vísað til umfjöllunar og meðferðar í sjávarútvegsnefnd Alþingis.