132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:07]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem komið var inn á í andsvari að þetta er ákveðið áhyggjuefni, sérstaklega vegna þess að vísindi eiga auðvitað að ganga út á gagnrýnin skoðanaskipti. En maður veltir fyrir sér hvort skipulagið á Hafrannsóknastofnun, það er að annars vegar pólitískur yfirmaður og hins vegar hagsmunaaðilar í útgerð, henti vísindastofnun. Ég hef vissar efasemdir um það og sérstaklega í ljósi þess að ekki er auðvelt fyrir þá sem stunda fiskifræði og standa fyrir utan hinar ríkisvæddu rannsóknarstofnanir að fá fjármagn til rannsókna. Þessi einangrun er visst áhyggjuefni og ég verð að segja að mér svíður það oft þegar ég verð vitni að því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur og gagnrýnir Hafrannsóknastofnun. Maður sem situr í fjárlaganefnd og hefur yfir fjármunum að ráða til stofnunarinnar er í rauninni hluti af því pólitíska valdi sem kemur á umræddri einokun í skoðunum og vísindum. Þetta er mikið áhyggjuefni og líka sá tvískinnungur sem maður verður oft var við, sérstaklega hjá sjálfstæðismönnum, hvað gagnrýni á Hafró varðar. Það er algjörlega ólíðandi að ekki sé einu sinni lyft undir þá fræðimenn sem hafa haft aðrar skoðanir en hin ríkisrekna stofnun sem þeir ráða í einu og öllu. Ég vil beina því til umræddra þingmanna — ég á von á því að þeir komi til umræðunnar þegar verið er að ræða fiskveiðistjórn og sérstaklega þá vísindastefnu sem þeir gagnrýna sjálfir — að þeir útskýri það einhvern tíma hvers vegna þeir hafi þá ekki búið þannig um hnútana að aðrir eigi kost á að rannsaka t.d. áhrif veiða á fiskstofna í kringum landið.