132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:39]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það sem hann sagði um ýsustofninn. Í reynd má halda því fram að hér hafi um langt skeið verið frjáls sókn í ýsustofninn því árum saman náðist ekki kvótinn og á síðustu árum hefur ýsustofninn tekið virkilega stórt stökk og það er erfitt að skýra af hverju. Það eru hugsanlega einhverjar breytingar í umhverfinu.

Aðeins um það sem hv. þingmaður sagði áðan um samspil hvalastofna og þorskstofna og hitaumhverfis hafsins. Muni ég rétt hófst hitaskeiðið sem einkenndi síðustu öld ekki fyrr en 1930 og stóð fram til ársins 1965. Þetta var hlýjasta skeið frá því að land byggðist ef frá eru talin 50 ár í upphafi Íslandsbyggðar þegar ákaflega heitt var hérna og var raunar forsenda þess að hér tókst farsælt landnám. En vegna þessa er erfitt að koma því heim og saman að hinn stóri þorskárgangur sem kom hér fram 1923 stafi af miklum hitabreytingum í hafinu. Ég man ekki betur en að þau hitaskil hafi ekki orðið í umhverfinu fyrr en í kringum 1930. Hugsanlega er nærtækara að benda á, eins og við höfum stundum séð á síðustu öld, að stórar göngur af öðrum hafsvæðum í grenndinni, þ.e. af Grænlandi, hafi hugsanlega leitt til þess að þessi mikla uppsveifla kom í þorskinn þá. En hæstv. fjármálaráðherra sem ber töluvert skyn á sjávarútveg gæti kannski komið hérna og auðgað umræðuna með dýpt sinni og vitsmunalegum þrótti.