132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:24]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir að hafa heyrt þessi rök frá hv. þingmanni þegar ríkisstjórnin lagði sjálf til þessa leið á árinu 2002 einmitt með sömu rökum og við teflum fram, þeim rökum að þetta getur verið verulega jákvætt innlegg inn í kjarasamninga, en nú er verið að ræða að þeir séu jafnvel að bresta og ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi þá stutt þá leið að fara í tímabundna niðurgreiðslu eins og þingmaðurinn orðar það. (PHB: Hvað ertu að tala um?) Hv. þingmaður hefur greinilega ekki lesið frumvarpið. Við erum að tala um að gera þetta einungis tímabundið í fimm mánuði til þess að hafa áhrif á vísitöluna og þá verði staðan metin með tilliti til heimsmarkaðsverðs. Við erum ekkert að tala um varanlega hækkun heldur er hún einungis hugsuð í sama tilgangi og ríkisstjórnin sjálf og hv. þingmaður gerði á sínum tíma á árinu 2002 að þetta væri jákvætt innlegg í kjarasamningana. Ríkisstjórnin sagði einmitt þá að þar sem bensínverðið hefði hækkað umtalsvert þá gæti það stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu. Þetta var á árinu 2002 og það eru nákvæmlega sömu rök uppi í málinu núna. Ég bið hv. þingmann að hafa það í huga að við erum einungis að leggja þetta til tímabundið í fimm mánuði.

Af því að hv. þingmaður nefndi að þetta væri líka jákvætt af því að þessar tekjur rynnu til vegagerðar þá verður þingmaðurinn að átta sig á því að einungis 13 milljarðar af 40 milljarða heildartekjum ríkissjóðs fara til vegagerðar þegar um er að ræða bílaskatta. Þessir heildarskattar ríkissjóðs hafa hækkað milli ára um 10 milljarða kr. Mér finnst að hv. þingmaður, sem er talnaglöggur, ætti að skoða allar tölurnar í kringum þetta og það er ábyggilega athyglisvert fyrir þjóðina að heyra Pétur Blöndal, sem talar fyrir skattalækkunum, mæla með skattahækkunum vegna þess að þetta eru ekkert annað en skattahækkanir sem staðið er fyrir nú að því er varðar afkomu almennings.