132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Aðbúnaður og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

[13:42]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að taka þetta mál upp í utandagskrárumræðu, málefni sem varðar okkur öll. Málefni aldraðra hafa verið mikið í umræðunni undanfarna mánuði og það verður augljóslega áfram um sinn. Umræðan hefur varpað ljósi á óviðunandi aðstæður fjölda aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum og þá ekki síður félagslega stöðu þess fólks sem fer til lengri dvalar inn á stofnanir fyrir aldraðra.

Milli 20–30% eldri en 65 ára búa í þjónustuíbúð á Íslandi á móti 50% í nágrannalöndunum og á stofnunum búa 55% á Íslandi í einbýli en 90% annars staðar á Norðurlöndum. Það er því augljóst að við höfum dregist verulega aftur úr hvað varðar breyttar áherslur í uppbyggingu öldrunarþjónustunnar og umbætur á dvalar- og hjúkrunarheimilum, stofnunum sem í flestum tilvikum eru heimili þessa fólks.

Umræðan endurspeglar einnig þá viðhorfsbreytingu sem orðin er frá umburðarlyndi fyrrum aldamótakynslóðar og þeirra krafna sem 68-kynslóðin gerir til búsetu og einkalífs. Skýrasta dæmið er réttmæt gagnrýni og mótmæli vegna aðbúnaðar aldraðra á Sólvangi. Aldrað fólk á ekki síður rétt til einkalífs en þeir sem yngri eru. Fjárhagslegt sjálfstæði eru mannréttindi og undirstaða mannlegrar reisnar. Þessum sjálfsögðu réttindum er kippt í burtu við innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili því í stað lífeyris koma vasapeningar. Ljóst er að daggjöld hafa ekki fylgt verðlagsþróun og því hafa stofnanir gripið til ýmissa ráða til að láta enda ná saman, þ.e. ódýrara vinnuafl, færra fagmenntað fólk, sparnaður í fæði, ræstingu og enginn hvati til að breyta húsakynnum og fjölga einbýlum. Við þær aðstæður hafa aðstandendur fengið aðkeypta umönnunarþjónustu til að sinna sínum nánustu og er þetta enn ein vísbendingin um þá misskiptingu á grunni efnahags sem nú er við lýði í þjóðfélaginu. Er það þetta sem koma skal? Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfnum slíkri þróun.