132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Aðbúnaður og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

[13:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki mjög flókið mál. Í fyrsta lagi erum við sammála um öll meginmarkmið. Ég hygg að við öll sem erum stödd í þessum sal séum sammála um að við viljum búa vel að öldruðu fólki, með heimahjúkrun og góðum og vönduðum dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þessum ásetningi okkar höfum við sett lög sem eru m.a. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.“

Komið hefur á daginn að lög þessi eru brotin. Það er staðfest m.a. í nýútkominni skýrslu frá stjórnsýsluúttekt um þjónustu við aldraða. Þar kemur fram að dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldrað fólk eru fjársvelt. Og ef menn telja svo ekki vera þá verða menn að segja frá því. Og ef menn vilja ekki, hæstv. heilbrigðisráðherra, hafa tvöfalt kerfi inni á þessum stofnunum þá verða menn einnig að láta verk sín tala.

Við höfum fengið að kynnast því í fjölmiðlum undanfarna daga hvert álagið er á starfsfólk inni á þessum stofnunum. Þetta er nokkuð sem samtök starfsmanna hafa hamrað á undanfarin ár. Ég nefni Sjúkraliðafélag Íslands, Starfsmannafélag ríkisstofnana og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þau hafa hamrað á þessu undanfarin ár og sagt að við eigum ekki að einblína bara á biðlistana heldur verðum við líka að horfa inn í stofnunina.

Ef við erum sammála um meginmarkmiðin, um hvað erum við þá ósammála? Hvers vegna látum við þetta gerast? Jú, það er vegna þess að við erum ósammála um forgangsröðun fjármuna. Þar skilja leiðir. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum viljað láta miklu meira fjármagn renna til þessarar þjónustu en ríkisstjórnarflokkarnir hafa viljað gera. Og þegar þær koma núna upp hv. þingmenn Ásta Möller og Jónína Bjartmarz og segja: (Forseti hringir.) Gerum Sóltún og Öldung hf. að fyrirmyndinni, þá segi ég já, (Forseti hringir.) um fjárveitingar. Látum önnur dvalar- og hjúkrunarheimili sitja við sama borð og búa við sömu kjör (Forseti hringir.) og það ágæta heimili gerir.

(Forseti (SP): Hv. þingmenn eru beðnir að virða hér þann tíma er gildir um umræður. Það eru aðeins tvær mínútur sem hver hv. þingmaður hefur.)