132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Aðbúnaður og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

[13:56]
Hlusta

Sigurrós Þorgrímsdóttir (S):

Frú forseti. Hér hafa verið góðar umræður um aðbúnað fyrir aldraða en í slíkri umræðu tel ég rétt að hugað sé að nýjum áherslum, komið með nýja hugsun í vistunarmál aldraðra.

Í Danmörku og reyndar víðar í Evrópu hefur ný aðferðafræði rutt sér til rúms sem virðist gefast mjög vel. Þessi nýja nálgun sem kallast stoðbýli leggur áherslu á sjálfræði aldraðra og fjárræði þeirra þannig að þeir fái haldið sjálfsvirðingu sinni þrátt fyrir minni færni. Kópavogsbær hefur átt í viðræðum við stjórnendur Hrafnistu um uppbyggingu á hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða þar sem byggt er á þessari hugmyndafræði. Stoðbýli er fyrir 8–10 manns þar sem hver heimilismaður hefur eigin íbúð. Heimilismenn halda tekjum sínum og greiða sjálfir húsaleigu og þá þjónustu sem óskað er eftir. Í miðju einingarinnar, sem kallast má hjarta hússins, er samrými íbúanna svo sem setustofa, gott eldhús og stór borðstofa. Þarna á að vera andrúmsloft samveru, nálægðar, öryggis og virkni sem gerir stoðbýlið að lifandi heimili en ekki að stofnun. Fyrirhugað er að bjóða upp á alla þjónustu sem aldraðir þurfa og óska eftir og sem geta notið þess að vera í eigin húsnæði. Í þessari hugmyndafræði er lögð áhersla á félagslegt sjónarmið í stað læknisfræðilegs.

Frú forseti. Þjóðin er stöðugt að eldast, fæðingum er að fækka og fólk lifir lengur. Það er brýnt að leitað verði nýrra úrræða í búsetu og umönnun aldraðra. Ég tel eftirsóknarvert að fara þá leið sem hér hefur verið rædd og hinn aldraði heldur ímynd sinni sem þátttakandi í samfélaginu og getur samhliða notað þjónustu sem í boði er.