132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kanínubyggð í Vestmannaeyjum.

104. mál
[15:20]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og tek undir með honum um nauðsyn þess að vel sé fylgst með þegar svona tilvik koma upp, þegar dýr sem ekki eru hluti af íslenskri náttúru sleppa laus. Það er raunar ljóst að það er víðar en í Vestmannaeyjum sem þetta hefur orðið að vandamáli. Það er t.d. bæði í Kjarnaskógi á Akureyri og eins í Bláskógabyggð þannig að það er alveg ljóst að þarna þarf að fylgjast vel með og grípa til viðeigandi ráðstafana þegar þess er þörf. Það er einmitt það sem umhverfisráðuneytið hefur gert með því að veita leyfi til þess að veiða kanínur í Eyjum.