132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

203. mál
[18:55]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hver sá sem hefur hlustað á þessa umræðu, ég tala ekki um horft á hana, hefur heyrt að hrokinn og hortugheitin hafa komið frá Samfylkingunni. Bændur eru upplýst stétt. Bændur gera sér grein fyrir því að þeir verða að sitja við sama borð og aðrir hvað stimpilgjöldin varðar. Það er alveg ljóst. Þeir ætlast ekki til þess af landbúnaðarráðherra og vita að hann getur ekki leyst það. Þeir sitja bara við sama borð og fólkið í landinu sem þess vegna er að gera upp Íbúðalánasjóð. Þeir eru ekki að biðja um neina sérreglu.

Svo koma hér tveir hv. þingmenn og setja sig í stellingar með kjaftasögum, hroka og yfirlæti svo sannleikurinn sé sagður. Mér finnst að hv. þm. Björgvin Sigurðsson og Jón Gunnarsson hafi orðið sér ærlega til skammar í dag. Að setja þá umræðu í gang að bændur eigi að búa við allt aðra stöðu en aðrir þjóðfélagsþegnar og landbúnaðarráðherra einn geti breytt einhverju þar um þó að lög séu í veginum. Þetta er auðvitað allt annað mál og stærra en svo.

Ég verð líka að segja um ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar að hvað sparisjóðina varðar, sem var eðlileg spurning, þá saknaði ég þess þegar þeir féllu út úr samkeppninni. Það hefði verið virkilega gaman að hafa sparisjóðina með í samkeppninni um lánasjóðinn en þeir hafa ekki alþjóðlegt lánshæfismat.

Svo vil ég þakka allt það góða sem sagt hefur verið í umræðunni en bið menn að gæta þess að hafa hroka sinn heima og yfirlæti þegar þeir tala um mál sem þeir virðast hafa litla þekkingu á eða a.m.k. þegar þeir vilja snúa út úr lögum landsins á löggjafarþinginu.